MótX hátíðarhöldunum var fram haldið þriðjudagskvöldið 15. Jan. Mikil skemmtan hlaust af enda glottu berserkir og valkyrjur við tönn, bitu í skjaldarrendur og óttuðust hvorki eld né járn.

Í A-flokki áttust eftirtaldir við á efstu borðunum:

Halldór Grétar og Hjörvar Steinn Grétarsson
Hjörvar Steinn fórnaði peði fyrir mjög réttlætanleg færi. Halldór Grétar gaf peðið fljótt til baka til að koma kóngi sínum í skjól. Upp kom staða með tveim biskupapörum á opnu borði. Hvítur át peð sem bragðaðist prýðilega. Í framhaldinu virtist hvítur vera að ná að stilla sig af og sérstaklega var Kh1 í 25. leik góður. En tímahrakið er vinur sterkari skákmannsins, útreikningar hans voru betri og Hjörvar Steinn sigldi skákinni heim. Fyrir áhugamenn um gott gengi minni spámanna þá átti hvítur hinn glæfralega leik 26. Bxf7+ með hugmyndinni Kg7 27. Bf4 og þá falla manndrápsútreikningar og milliskákir honum í hag !

Jóhann Hjartarson og Guðmundur Kjartansson
Jóhann var ekkert ánægður með byrjun skákarinnar, biskup Gumma á a7 var stórveldi sem kom í veg fyrir að hvítur kæmi kóng sínum í skjól með stutthrókun. En eftir Karpovs-tilfæringar á riddara til e3 og síðan f5 náði Jóhann að lokum að herja út skiptamun af Gumma. En hvítur ætlaði sér um of, og í stað þess að sætta sig við að svartur ynni eitt peð til baka upp í skiptamuninn þá sótti hann á annað peð. Á meðan stillti svartur sér til atlögu, biskupstórveldið á a7 var þarna ennþá. Hvítur réð ekki við atlöguna í tímahrakinu og það var því við hæfi að stórveldið færði sig á e3 og knúði hvítan til uppgjafar. Biskupinn fór á a7 í sjötta leik og þetta var í fyrsta skiptið sem hann hreyfði sig! En eins og góður stórmeistari sagði: „Hótunin er oft sterkari en leikurinn!“.

Hörður Aron Hauksson og Jón L Árnason
Með góðum árangri í B-flokki árið 2017 fékk Hörður Aron rétt á að tefla í A-flokki. Núna var hann mættur í fyrstu skák sína á stóra sviðinu og andstæðingurinn ekki af verri endanum. Stórmeistarinn og fyrrum heimsmeistari ungmenna Jón L Árnason. Stigamunurinn var töluverður og reyndar svo mikill að Dr Eló taldi hverfandi líkur á að hvítur færi heim með eitthvað annað en tap á bakinu. Hvítur les Helga Ólafsson og hann segir að stigin tefli ekki. Hörður Aron var því alls óhræddur og lagði í peðaframrás á kóngsvæng og virtist bara í ágætum málum. En eftir langhrókun stórmeistarans fór smám saman að síga á ógæfuhliðina hjá þeim stigalægri. Í lokin hefði einhverjum (og væntanlega hvítum líka!) virtst sem hvítur væri að flétta mann af svörtum. En stórmeistarinn og stigin hans sáu lengra og hann skákaði biskup af í lokastöðunni. Að guðsmanninum gengnum var greið leið fyrir frípeð svarts til þess að hefja sig til æðra veldis. Hvítur sá því sæng sína út breidda og gafst upp.

Björgvin Víglundsson og Dagur Arngrímsson
Dagur virtist vera að koma sér vel fyrir á drottningarvæng. En hann var ekki búinn að koma kóng sínum í skjól og það nýtti Björgvin sér með nokkrum snilldarleikjum þegar Dagur ákvað að fara í snemmbúna atlögu með peðsvinning í huga. Út úr snilldinni kom Björgin manni yfir, með færi á sjöundu reitarröðinni og frípeð að auki. En Dagur var háll sem áll og náði mótfærum sem að lokum skiluðu honum skiptum hlut.

Sjá önnur úrslit í A og B flokkum í yfirliti hér að neðan
Meðal óvæntra úrslita í A-flokki var sigur Jóhanns Ingvasonar á Degi Ragnars, Atli Freyr vann Sigurð Daða og Siguringi vann Vigni Vatnar. Skákstigin streyma eftir Reykjanesbrautinni til Keflavíkur!

Í B-flokki unnu Birkir Ísak og Batel góða sigra og Stefán Orri náði jafntefli gegn Stephan Briem.
Þeir Jón Trausti, Birkir Ísak og Eiríkur Björnsson eru efstir með fullt hús.

A flokkur:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

B flokkur: