Þriðjudaginn 21. febrúar voru veitt verðlaun fyrir hið firnasterka Nóa Síríus mót 2017. Í tengslum við það fór fram sjö umferða lauflétt hraðskákmót.

Það var allvel mætt í stúkuloft Breiðabliksvallar þetta þriðjudagskvöld. Skemmtileg blanda af reyndum meisturum og ungum og efnilegum skákmönnum. Grjóthörðum. Það er alveg ljóst að ekkert bætir menn meira í skákinni en að tefla við sér sterkari andstæðinga. Það sást glögglega í þessu móti. Hinir ungu skákmenn gáfu ekki þumlung eftir og hlaut margur meistarinn skráveifu. En hei, hvað með það – eins og einhver sagði. Skák er einmitt svona skemmtileg, vegna þess að hún brúar kynslóðabilið og það er mikið um óvænt úrslit. Það eru allir jafnir við upphaf tafls og ungum mönnum fer hratt fram ef þeir halda sig við efnið og já, fá tækifæri til þess að tefla við sér sterkari. Með hinum rifjast upp sá tími þegar þeir stóðu vart fram úr hnefa en áttu í fullu tré við eldri og reyndari. Annars er aldur afstæður eins og við vitum og það sannast vel í manntafli.

Eftir harða en sanngjarna baráttu í hraðskákinni, stóð Helgi Áss Grétarsson uppi sem sigurvegari mótsins eftir að Jóhann Hjartarson hafði verið í forystu lengst af. Í síðustu umferð náði Benedikt Jónasson að leggja Jóhann að velli en Helgi sigraði Þröst Þórhallsson.

Röð efstu manna varð þessi: 1, sæti Helgi Áss Grétarsson með 6 vinninga, 2. varð Jóhann Hjartarson með fimm og hálfan. Jafnir í 3.-6. sæti urðu Þröstur Þórhallsson, Andri Áss Grétarsson, Benedikt Jónasson og Björn Hólm Birkisson.

Lokaröð keppenda má finna hér: http://chess-results.com/tnr265009.aspx?lan=1&art=1&wi=821

Að loknu móti voru veitt verðlaun fyrir hraðskákina en svo var komið að aðal dagskrárlið kvöldsins – nefnilega verðlaunaafhending fyrir Nóa Síríus mótið 2017.

Nóa Síríus mótinu hafa verið gerð góð skil annars staðar, en það þótti með eindæmum vel heppnað í ár enda ekki við öðru að búast þegar snillingar eins og Jón Þorvaldsson og Halldór Grétar Einarsson taka höndum saman.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra var aðstandendum til halds og trausts við afhendingu verðlaunanna.

B-flokkur

1.-2. sæti Hörður Aron Hauksson (peningaverðlaun)
1.-2. sæti Jón Trausti Harðarson (peningaverðlaun)
3. sæti Stephan Briem (skákbókarúttekt)
Unglingaverðlaun 14 ára og yngri Óskar Víkingur Davíðsson (skákbókarúttekt)

Heiðursverðlaun

Friðrik Ólafsson (gjafakarfa)

Endurkomuverðlaun

Björn Halldórsson (gjafaveski)
Jón Hálfdánarson (gjafaveski)

Sagan um Friðrik og Vilhjálm

Jón Hálfdánarson notaði tækifærið og þakkaði mótshöldurum fyrir skemmtilegt mót með óvenjulegri umgjörð – það hefði verið gaman að koma aftur að skákinni með þessum hætti eftir langt hlé. Jón sagði í framhaldinu skemmtilega sögu sem góður rómur var gerður að. Friðrik bætti við söguna á stöku stað, auk þess sem ritari leitaði heimilda. Til gamans fer þessi saga hér á eftir.

Jón sagði að í uppvexti sínum á 6. áratugnum hefði landinn helst barið sér á brjóst fyrir tvö stórvirki. Hið fyrra var þegar Friðrik vann stórmótið í Hastings 1955-56 ásamt Korchnoi, hið síðara var afrek Vilhjálms Einarssonar þegar hann tók silfur í þrístökki í nóvember 1956, í Melbourne, tæpu ári síðar.

Það hefði verið sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til þess að glíma við Friðrik, því auðvitað var það hann sem dró skákvagninn og hvatti landann til dáða. Jón minntist þess, að skákin hefði með afrekum Friðriks notið velvilja landsmanna. Til dæmis hefðu nokkrir einstaklingar úr Stúdentaráði Háskólans tekið höndum saman og stofnað sjóð til þess að standa straum af ferðum Friðriks á mót erlendis. Meðal þessara framsýnu stúdenta voru Ólafur Haukur Ólafsson, læknir, Jón Böðvarsson, skólameistari og Njálufræðingur og Sverrir Hermannsson, síðar ráðherra og seðlabankastjóri. Sjóðurinn var kallaður Friðrikssjóður og munaði nokkuð um hann.

Þó var það þannig að fyrir áskorendamótið 1959 í Júgóslavíu, þar sem teflt var á þremur stöðum, Bled (Slóveníu), Zagreb (Króatíu) og Belgrad (Serbíu), æxluðust mál þann veg að að ekki var nóg í sjóðnum til þess að standa straum af aðstoðarmanni Fyrir Friðrik. Þá bárust böndin að SÍ að sjá um fjármögnun en þar hringlaði í kassanum. Þá voru góð ráð dýr. Það fór svo að kvisast út að Friðrik fengi ekki aðstoðarmann með sér á þetta mikilvæga, langa og stranga mót. Það var svo áhugamaður einn, Pétur Halldórsson sjómaður, sem tók sig til og hringir í Ólaf Thors og segir honum allt af létta. Ólafur sem var mikill skákáhugamaður og einn af stofnendum TR og var í stjórn félagsins fyrstu árin, var mjög vel kunnugur skákmálum. Eftir að Pétur talar við Ólaf, hringir Ólafur í Friðrik og spyr hvernig málin stæðu. Þegar hann fregnaði það frá fyrstu hendi að ekki væri útlit fyrir að Friðrik gæti haft með sér aðstoðarmann, hugsaði Ólafur sig um, hummaði aðeins og sagði svo: “Það er nefnilega það. Það getur ekki verið stórt vandamál, ef hægt er að senda mann alla leið til Ástralíu til þess eins að hoppa þar eins og kengúra, þá hlýtur að vera hægt að senda mann til Júgóslavíu”. Ekki svo að skilja að Ólafur væri að gera lítið úr afrekum Vilhjálms, en gat ekki stillt sig um að taka svo til orða. Ólafur spurði svo Friðrik hvort hann kysi frekar að það færi fram söfnun, eða að styrkurinn færi á fjárlög. Friðrik var hlynntari síðari kostinum.

Það leit svo út fyrir að Ingi R. Jóhannsson kæmist ekki með og því fékk Friðrik Vestur-þýska stórmeistarann, Klaus Viktor Darga til liðs við sig. Þegar til kom, hafði Ingi R. tök á því að komast með og upphæðin var næg til að standa straum af kostnaði beggja. Friðrik hafði því tvo aðstoðarmenn með sér út til Júgóslavíu til þessa 28 umferða ofurmóts þar sem Tal sigraði og vann sér inn rétt til þess að skora á heimsmeistarann, Botvinnik. Tal varð svo heimsmeistari 1960 eins og skákáhugamenn vita.

 

Sérstök verðlaun

Sérstök verðlaun fyrir sigur á æfingamóti Taflfélags Reykjavíkur árið 1967 voru veitt fjármálaráðherranum sjálfum, Benedikt Jóhannessyni. Hann er sterkur skákmaður og þótti afar efnilegur uns hann sneri sér að öðrum hugðarefnum og hugaríþróttum. Við setningu mótsins hafði það einmitt komið í ljós, að Benedikt hafði aldrei fengið bókarverðlaun afhent fyrir téðan sigur. Jón Þorvaldsson bætti úr þessu 50. árum síðar og Friðrik Ólafsson afhenti Benedikt fyrir Jóns hönd vandaða bók um snillinginn frá Riga, Mikhail Tal.

Kvennaverðlaun

Lenka Ptacnikova (gjafakarfa)

Sérstök þroskaverðlaun

Benedikt Jónasson (gjafakarfa)

Skákmeistari Breiðabliks

Dagur Ragnarsson (bikar)

Unglingameistari Breiðabliks

Stephan Briem (bikar)

A-flokkur

1.-2. sæti: Daði Ómarsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
1.-2. sæti: Þröstur Þórhallsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
3.-4. sæti: Guðmundur Kjartansson (peningaverðlaun og gjafakarfa)
3.-4. sæti: Jón Viktor Gunnarsson (peningaverðlaun og gjafakarfa)

Skákstjóri hraðskákmótsins, eins og aðal mótsins var Vigfús Vigfússon sem stjórnaði af hnökralausri alúð og snilli.

Þar með lýkur umfjöllun um Nóa Síríus mótið 2017. Bakhjarli mótsins, Nóa Síríus, er kærlega þakkaður stuðningurinn og keppendum þátttakan og drengileg framganga.

Í mótsnefnd voru, auk prímusanna Jóns Þorvaldssonar og Halldórs Grétars Einarssonar, þeir Gunnar forseti Björnsson, Pálmi Ragnar Pétursson, Tómas Veigar Sigurðsson, Þorsteinn formaður Þorsteinsson og Vigfús Vigfússon.

Sjáumst að ári!


Myndaalbúm: Hraðskák og verðlaunaafhending