31.12.2011 kl. 11:01
Áramótapistill formanns.
Árið 2011 hefur verið skákfélaginu Goðanum gjöfullt. A-sveitin vann sig upp í 2. deild í mars og nú þegar fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga er lokið er staðan A-sveitarinnar í 2. deild mjög vænleg og nánast öruggt að Goðinn tefli fram liði í 1. deild keppnistímabilið 2012-13 í fyrsta skipti í sögu félagsins. B-sveitinni mistókst að komast upp úr 4. deildinni í mars sl. eftir frekar óvænt tap í lokaumferðinni. Staða B-sveitarinnar er vænleg fyrir seinni hlutann, en B-liðið er í 4. sæti og þarf að ná 3. sætinu til þess að fara upp í 3. deild. það skal takast á Selfossi í mars 2012.
Sigurður Daði Sigfússon leiddi A-sveitina í október.
Enn fjölgaði félagsmönnum á árinu en nú um áramót eru 55 skákmenn skráir í félagið. Engin skákmaður yfirgaf félagið á árinu, en einn af stofnendum Goðans, Jóhann Sigurðsson, lést í janúar.
Eftirtaldir gengu til liðs við Goðann á árinu.
Sigurður Daði Sigfússon
Hlíðar Þór Hreinsson
Stephen Jablon (USA)
Sigurgeir Stefánsson
Arnar Grant
Gríðarlegur liðstyrkur var í þeim Sigurði Daða og Hlíðari Þór og leiddi Sigurður Daði A-sveitina í deildarkeppninni á fyrsta borði í október. Hlíðar kom inn í A-sveitina og styrkti hana mikið. A-liðið er nú orðið það sterkt að hægt er að stilla upp liði þar sem enginn er undir 2200 stigum. Stephen er fyrsti erlendi skákmaðurinn sem gengur til liðs við Goðann. Hann tefldi í B-liðinu. Nokkrar deilur urðu í kringum hans félagsskipti í haust, en að lokum úrskurðaði mótsstjórn Íslandsmóts skákfélaga hann löglegan með Goðanum eftir þó nokkuð þras. Arnar og Sigurgeir gengu til liðs við Goðan nú á haustdögum en hafa ekki teflt í deildarkeppninni enn sem komið er.
Hér er formaður búinn að smala landsliði Færeyinga inn í helli í Dimmuborgum sl. sumar.
Mótahald var með miklum blóma á árinu, því auk hefðbundinna móta hélt Goðinn nokkuð fjölmennt sumarskákmót í Vaglaskógi þar sem nágrannar okkar frá SA fjölmenntu. Landskeppni við Færeyinga var svo haldin í ágúst á Húsavík, en þar var fyrri umferðin tefld. Þrír skákmenn frá Goðanum tefldu fyrir Íslands hönd í keppninni. Fyrr um daginn var farið með Færeyinganna í skoðunarferð í Mývatnssveit og svo bauð Goðinn öllum upp á kjötsúpuveislu á Húsavík.
Einar Hjalti Jensson á Framsýnarmótinu í október.
Framsýnarmótið var haldið í október og mættu 18 keppendur til leiks og þar af 5 frá nágrönnum okkar í SA. Mótið heppnaðist í alla staði vel en Sigurður Daði Sigfússon stóð að lokum uppi sem sigurvegari. Einar Hjalti Jensson kom tvisvar til Húsavíkur á árinu. Í fyrra skiptið tók hann félagsmenn í almennar stúderingar í júlí mánuði, en í september heimsókninni var skipulögð sérstök skákhelgi þar sem félagsmenn gátu pantað einkatíma og svo var boðið upp á hópstúderingu bæði kvöldin. Þetta heppanðist afar vel og voru félagsmenn ánægðir með heimsóknir Einars Hjalta.
Jón þorvaldsson.
Jón Þorvaldsson hefur verið iðinn við kolann í suðvestur-goðorði Goðans og eru heimboð hans orðin víðfræg í Íslenskum skákheimi. Þar hittast félagsmenn Goðans sem búa á suðvestur-horninu og stúdera saman og skemmta sér um leið. Engum blöðum er um að fletta að þetta tiltæki Jóns hefur skilað sér í auknum áhuga félagsmanna og er þegar farin að skila sér líka við skákborðið.
Eins eru kvöldverðarboð Jón og Helgu í Suðurvangi orðin að föstum lið í upphafi íslandsmóts skákfélaga bæði fyrir fyrri og seinni hlutann. þar hittast allir þeir skákmenn sem tefla í Íslandsmóti skákfélaga fyrir Goðans og borða saman kvöldverð, treysta liðsandann og undirbúa átökin fyrir deildarkeppnina.
Smári Sigurðsson.
Stefnt er að því að koma saman á einhverjum veitingastað á Selfossi laugardaginn 3. mars nk og borða saman fyrir síðustu umferðina. Þá getum við vonandi haldið upp á sæti í 1. deild og vonandi fagnað sæti fyrir B-liðið í 3. deild !
Það er alveg ljóst að það er vel hægt að halda saman skákfélagi þó svo að það hafi í raun tvær starfsstöðvar með hátt í 600 kílómetra millibili. Með tölvutækninni, góðri skipulagningu og sterkum félagslegum tengslum er þetta minna mál en margur heldur.
Að lokum vil ég þakka öllum félagsmönnum fyrir eftirminnilegt ár og óska þeim öllum farsældar á nýju ári.
Hermann Aðalsteinsson formaður skákfélagsins Goðans.
