Lög skákfélagsins Goðans
- Heiti félagsins er Skákfélagið Goðinn.
- Aðal starfsvettvangur félagsins eru Þingeyjarsýslur.
- Stjórn félagsins skal skipuð þremur mönnum, formanni, gjaldkera og ritara. Auk þeirra skal kjósa einn varamann í stjórn og einn skoðunarmann reikninga/endurskoðanda. Kjörtímabil stjórnar, varamanns og skoðunarmanns reikninga/endurskoðanda er eitt ár í senn.
- Lögheimili félagsins er heima hjá formanni þess á hverjum tíma.
- Tilgangur félagsins er skákiðkun, auk þess að efla og að auka þekkingu og áhuga á skák á starfssvæði félagsins og halda uppi góðu félagsstarfi. Félagsmenn eru einnig hvattir til almennrar iðkunar íþrótta samhliða skákiðkun.
- Stjórn skal, að svo miklu leyti sem unnt er, sjá um að haldin séu skákmót, m.a. árleg meistaramót og skákæfingar sem öllum áhugasömum er heimill aðgangur að. Stjórn velur skákstjóra er sjái um framkvæmd mótanna og skákstjóri skal einnig sjá til þess að reglum FIDE og Skáksambands Íslands sé framfylgt varðandi mótahald. Stjórn félagsins skal sjá til þess að sem flest skákmót á vegum félagsins uppfylli skilyrði er gilda um skákstig og séu send inn til útreiknings á alþjóðlegum skák stigum.
- Félagið skal vera aðildarfélag að Skáksambandi Íslands.
- Rétt til inngöngu í félagið hafa allir áhugasamir óháð búsetu.
- Á félagsfundum og aðalfundum hafa allir félagsmenn jafnan atkvæðisrétt
- Aðalfundur félagsins hefur úrskurðarvald í öllum málum þess. Hann skal haldinn fyrir marslok ár hvert, ef kostur er. Skal til fundarins boðað, bréfleiðis eða með tölvupósti til allra félagsmanna, með a.m.k. 10 daga fyrirvara. Með aðalfundarboði skulu lagabreytingartillögur fylgja með, séu þær einhverjar. Einnig skal skýrsla stjórnar og ársreikningar félagsins fylgja með fundarboði. Aðalfundur telst löglegur sé framangreind skilyrði uppfyllt óháð því hve margir félagsmenn mæta á aðalfundinn. Á aðalfundi skal fjalla um eftirfarandi liði:
(A) Kosinn fundarstjóri og fundarritari.
(B) Flutt skýrsla stjórnar.
(C) Lagðir fram reikningar félagsins sem ná yfir síðastliðið almanaksár.
(D) Umræður um skýrslu stjórnar og afgreiðsla reikninga.
(E) Kosning formanns.
(F) Kosning gjaldkera
(G) Kosning ritara.
(H) Kosning á einum varamanni í stjórn og skoðunarmanns reikninga/endurskoðanda
(I) Félagsgjöld ákvörðuð.
(J) Lagabreytingatillögur sem séu löglega boðaðar
(K) Önnur mál.
- Með samþykki fundarmanna má breyta röð dagskrárliða. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti úrslitum. Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti. Heimilt er að halda stjórnarfundi, félagsfundi og aðalfundi félagsins í gegnum fjarfundarbúnað, eða með öðrum hætti með fjarsambandi
- Stjórn kemur fram fyrir hönd félagsins og tekur ákvarðanir fyrir hönd þess, séu þær félaginu, markmiðum þess og málefnum í hag. Stjórn ber ábyrgð á gerðum sínum og gerir grein fyrir þeim á aðalfundi. Innan stjórnar ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jöfn ræður hlutkesti.
- Allar ályktanir og bindandi ákvarðanir stjórnar, félagsfundar og aðalfundar skulu færðar í fundargerðabók.
- Formaður skal sjá til þess að halda utan um félagatal og afskrá þá sem ganga úr því. Félagatal skal vera aðgengilegt á vef félagsins og uppfært eftir þörfum. Allir þeir sem óska eftir inngöngu í félagið eða vilja ganga úr því, þurfa að gera það í gegnum keppendaskrá Skáksambands Íslands á þar til gerðu eyðublaði á netinu. Formaður skal leiðbeina þeim um hvernig það fer fram.
- Lögum þessum er einungis hægt að breyta á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða enda hafi lagabreytingatillögurnar verið tilgreindar í fundarboði.
- Ákvörðun um að leggja félagið niður, eða sameina það öðru félagi, er ekki hægt að taka nema á aðalfundi og með samþykki 2/3 hluta fundarmanna. Verði félagið lagt niður skulu eigur þess, ef einhverjar eru, afhentar Skáksambandi Íslands (SÍ) til varðveislu.
- Að öðru leyti gilda skáklög Skáksambands Íslands í þeim tilvikum sem ekki er um getið hér.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Skákfélagsins Goðans 6. mars 2023.
Eldri lög frá 2. mars 2021 falla þar með úr gildi