1.4.2013 kl. 10:14
Arnar og Helgi Áss sigruðu á páskamóti Nóa-Siríusar
Það sveif léttur en
hátíðlegur andi yfir páskahraðskákmóti Goðans Máta sunnan heiða sem haldið var miðvikudaginn
27. mars. Mótið var kennt við hið ágæta fyrirtæki Nóa-Siríus sem lagði
keppendum til verðlaun, páskáegg að sjálfsögðu. Svo skemmtilega var um búið að
allir málshættirnir í páskaeggjunum tengdust skák beint eða óbeint, t.d.:
„Enginn verður óbarinn biskup“ og „Ja sko Spassky.“

Pálmi, Arnar, Kristján, Helgi, Jakob og Arngrímur. Jón Þ tók myndina.
Páskarnir eru hátíð
upprisu og frjósemi og því ekki að furða
að snilldartilþrif sæjust í mörgum skákanna. Sérstakt ánægjuefni var hve oft brá fyrir djörfum upphafsleikjum á
borð við 1.b-4 og 1. g-4 en félagsmenn hafa einmitt sökkt sér ofan í þessar
byrjanir að undanförnu í þeim ásetningi að gera þær að beittu vopni á Íslandsmóti
skákfélaga 2013-2014.
Mótið var vel mannað enda voru
nokkrir af sprækustu hraðskákmönnum landsins meðal þátttakenda.
Röð efstu manna:
1.-2.sæti Arnar
Þorsteinsson og Helgi Áss Grétarsson
3. sæti Kristján Eðvarðsson
4.-5. sæti Jón Þorvaldsson og Pálmi R. Pétursson
6. sæti Arngrímur Gunnhallsson
7. sæti Jakob Þór Kristjánsson
Nýtt þróunarverkefni Goðans-Máta
Hverju félagi er hollt að
ástunda þróun og nýsköpun. Í mótslok var greint frá nýju þróunarverkefni
Goðans-Máta sem félagið mun leita til Nóa-Siriusar og etv. fleiri matvælafyrirtækja
til samstarfs um. Hugmyndin gengur út á nýja tegund hraðskákar, svonefnda
átskák.
Í átskák verða taflmennirnir
gerðir úr matvöru, t.d. hvítu og dökku súkkulaði, og í hvert sinn sem annar
hvor keppenda drepur taflmann andstæðingsins verður jafnframt að leggja sér þann taflmann til munns. Átið verður
þó ekki lagt á skákmanninn sjálfan því að gert er ráð fyrir að hann hafi sér
til fulltingis aðstoðarmann, svonefnt átvagl, sem sporðrennir föllnu mönnunum auk þess að gefa góð ráð um vænleg
uppskipti. Átvagl verður virðingarheiti en augljóst er að reyna mun mjög á
siðferðilegan þroska viðkomandi einstaklings að láta ekki stjórnast af græðginni
einni saman við ráðgjöfina. Gert er ráð fyrir að fyrsta átskákmót Goðans-Máta
verði haldið á öndverðu ári 2014 undir viðeigandi kjörorði: ÁT og MÁT.
Að endingu var að venju
sunginn félagssöngur Goðans-Máta „Sé ég eftir sauðunum“. Forsöngvari var Pálmi
R. Pétursson, sem er maður einmuna raddfagur og lagviss, en aðrir viðstaddir
hrinu við eftir föngum.
Gens una sumus – Við erum
öll af sama sauðahúsi.
