24.1.2014 kl. 22:25
Bragi og Björgvin efstir á Nóa Síríus mótinu
Alþjóðlegu meistararnir Bragi Þorfinnsson (2454) og Björgvin Jónsson (2340) eru efstir með fullt hús að lokinni þriðju umferð Nóa Síríus-mótsins – Gestamóts GM Hellis og Breiðabliks sem fram fór í kvöld í Stúkunni í Kópavogi. Bragi vann Guðmund Gíslason (2316) en Björgvin hafði betur gegn Halldóri Grétari Einarssyni (2190) í maraþonskák. Þorsteinn Þorsteinsson (2243) gerði sér lítið fyrir og lagði stórmeistarann Þröst Þórhallsson (2445) í hörkuskák.
Átta skákmenn hafa 2½ vinning og ljóst að allt getur gerst á mótinu.
Sem fyrr var töluvert um óvænt úrslit. Þröstur Árnason (2267) heldur áfram að gera góða hluti og gerði jafntefli við Dag Arngrímsson (2381) en í annarri umferð vann hann Karl Þorsteins. Björgvin S. Guðmundsson (1914) gerði jafntefli við Lenku Ptácníková (2245) og Vignir Vatnar Stefánsson
(1800) sýndi hvers hann er megnugur í endatöflum með sigri gegn Baldri A. Kristinssyni (2181).
Næsta umferð
Fjórða umferð mótsins fer fram nk. fimmtudagskvöld. Þá mætast meðal annars: Bragi-Björgvin, Elvar-Stefán, Davíð-Jón Viktor, Þröstur Á-Björn og Þorsteinn-Dagur A.
