13.4.2012 kl. 20:09
Gallerý Skák: Jón Þorvaldsson kom sá og sigraði
Í gærkvöldi var þröng á þingi í Gallerýinu þar sem fram fór EftirPáskaMótið um SAMBÓ NammiBoltann, sem keppt var um að nýju þar sem gefandinn GRK vann hann sjálfur í síðustu viku. Ekkert var gefið eftir í baráttunni fyrir sætum sigri -nema síður væri – rétt eins og vanalega og mörg óvænt úrslit litu dagsins ljós, enda orðið bjart frameftir kvöldi.
Jón Þorvaldsson úr Goðum kom í heimsókn til hrista af sér slenið og velgja öðrum þátttakendum undir uggum í leiðinni eftir bestu getu. Ekki verður annað sagt en að honum hafi tekist það bærilega með smáheppni að vísu, en ekki er spurt að vopnaviðskiptum heldur leikslokum. Hann kom sjálfum sér á óvart með því að vinna mótið með 9.5 vinningi af 11 mögulegum, rétt á undan Jóni Þ. Þór sem kom næstur með 9 vinninga. Gunnar Gunnarsson varð þriðji með aðeins 7.5 vinninga og hefur oft gengið betur. Síðan komu nokkrir aðrir í hnapp eins og oft vill verða raunin á þegar allir geta unnið alla og teflt er fyrir fegurðina.
Heilabrot eru heilsubót: Ekki verður með sanni sagt að skákmenn sitji bara á rassinum og geri ekki neitt þegar taflmennska er annars vegar eins og oft er haldið fram. Alls voru tefldar 198 skákir þetta kvöldið að jafnaði 50 leikir hver eða um 10.000 leikir alls. Það er því deginum ljósara að skákiðkun er bæði andleg og líkamleg heilsurækt. Það reynir mikið á jafnt andlegt og líkamlegt atgervi að úthugsa alla þess leiki og síðan að hreyfa taflmennina tíu þúsund sinnum á stuttum tíma
Að venju gerðu menn sér alls konar kruðerí að góðu og snæddu síðan Hróa Hattar pizzur með góðri list í taflhléi og ræddu um daginn og veginn.
