8.3.2011 kl. 10:48
Goðmögnuð framganga á lokaspretti.- Íslandsmót skákfélaga. Liðsstjóra pistlar.
Þá eru liðsstjórapistlar vegna Íslandsmóts skákfélaga klárirog eru birtir hér fyrir neðan. Jón Þorvaldsson skrifar pistil fyrir A-liðið en Hermann Aðalsteinsson skrifar pistil fyrir B og C-liðið.

Goðinn A gegn SA-b. Ásgeir, Einar, Þröstur, Björn, Tómas og Jón Þ stendur th. á myndinni.
Goðmögnuð framganga á lokaspretti
Helgin 4. – 5 . okt. var góð skemmtan fyrir þau hundruð skákmanna og áhorfenda sem lögðu leið sína í Rimaskóla. Hin vörpulega A-sveit Goðans lagði allt í sölurnar til að ná öðru af tveimur efstu sætum í þriðju deildinni. Það takmark náðist með tilþrifum þó að tæpt stæði á stundum. Þannig komust skutilsveinar Hermanns formanns skör hærra í virðingarstiga skáklistarinnar og geta borið höfuðið hátt fram á haust komanda þar sem hin rómaða keppnisharka í 2. deild gín við görpunum.
Handleiðsla og ungverskt gúllas
Enn hafði Goðanum bæst liðsstyrkur því að kempurnar Kristján Eðvarðsson, tölvuséní, og Þröstur Árnason, fyrrum Evrópumeistari unglinga, höfðu gengið til liðs við félagið þingeyska og munaði um minna. Vandað var til undirbúnings, jafnt huglægt sem líkamlega. Höfðu keppendur æft saman um nokkurra vikna skeið undir traustri handleiðslu þjálfara liðsins, Einars Hjalta, þar sem dýpri rök skáklistarinnar voru brotin til mergjar. Einnig kom sér vel að Goðinn tefldi æfingaeinvígi við Taflfélag Reykjavíkur viku fyrir mót í boði veitingamannsins geðþekka, Torfa Leóssonar. Torfi bætti um betur með því að kenna nokkrum af keppendum Goðans undirstöðuatriði hugleiðslu, undir kjörorðinu: „Goðar verða líka að rækta Garðinn sinn.“

Þröstur Árnason mætti til leiks eftir langa fjarveru frá skákborðinu.
Lokahnykkur undirbúningsins var svo föstudagssíðdegið 4. okt. þegar liðsmenn Goðans úr öllum þremur sveitunum hittust yfir léttum málsverði, nánar tiltekið ungverskri gúllassúpu. Svo skemmtilega vildi til að uppskriftina að súpunni bragðmiklu mátti rekja til forföður ungverska stórmeistarans og Íslandsvinarins Laos Portisch, sem er annálaður matmaður og hungrar í fleira en eitruð peð. Það var glatt í Hafnarfirðinum þessa síðdegisstund. Menn eggjuðu hver annan lögeggjan með tilheyrandi vopnaglamri, veinan og gaulan. Þótti formanninum, Hermanni Aðalsteinssyni, nóg um og minnti liðsmenn á að ekki væri nóg að hrútar skækju hornin fyrir bardaga. Þeim þyrfti líka að beita af kunnáttu og afli þannig að undir tæki í fjöllunum.
Dregur til tíðinda
Viðureignin á föstudagskvöldið var gegn sterkri sveit Akureyringa sem var jöfn Goðanum að stigum. Ásgeir, Björn og Tómas unnu sínar skákir en Einar Hjalti, Þröstur og Jón gerðu jafntefli. Niðurstaðan: Goðinn 4,5 – SA 1,5.
Þó að spennan væri ærin fyrir mótið, jók það enn á eftirvæntinguna að ekki var ljóst hvort Kristján Eðvarðsson gæti teflt með á laugardeginum því hann þreytti próf í Niðurlöndum á föstudeginum og ekki réðst fyrr en á síðustu stundu hvort hann næði kvöldfluginu til Keflavíkur. Kristján komst sem betur fer í tæka tíð og viðureignin við Vestmannaeyingana knáu á laugardagsmorgni var kynngimögnuð. Þó svo að sveit Goðans væri sterkari á pappírnum, börðust Eyjamenn eins og ljón og niðurstaðan varð jafntefli á öllum borðum: 3-3.

Kristján Eðvarðsson mætti til leiks í 6 og 7. umferð.
Víkingasveitin hafði þegar hér var komið sögu tryggt sér efsta sætið í 3. deild með 11 stigum og góðu vinningshlutfalli, hafði ekki tapað stigi nema gegn Goðanum. Jafnar fyrir síðustu umferð með 9 stig voru sveitir TV B með 23 vinninga, Goðinn með 22,5 vinninga og TG með 22 vinninga. Sveitir TV B og TG mættust í lokaumferðinni og skildu jafnar en Goðar öttu kappi við C-sveit Hellis sem allt í einu var orðin miklu öflugri en gegn Víkingasveitinni í umferðinni á undan. Koma enda á daginn að Hellisbúar höfðu allt annað í huga en að renna rauðum dregli undir skrúðgöngu Goðanna upp í 2. deild. Viðureignin hófst með miklu vopnaskaki og þung högg féllu en svo fór að lokum að beittir brandar Goða reyndust máttugri vopn en höggþungar kylfur Hellisbúa. Einstök úrslit urðu þau að Ásgeir hneppti erkibiskup Gunnars formanns í herkví á 1. borði og varð formaðurinn að játa sig sigraðan. Á öðru borði varð jafnt milli Kristjáns Eðvarðssonar og Bjarna Jens Kristinssonar í hróksendatafli sem var svo spennandi að bægja varð viðkvæmum sálum frá borðinu. Á þriðja borði tefldi Einar Hjalti léttleikandi sóknarskák þar sem hróksfórn á g-7 kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og braut á bak aftur varnir Gísla Hólmars Jóhannessonar. Á fjórða borði stóð skákdrottingin efnilega, Hallgerður Þorsteinsdóttir, sig frábærlega gegn okkar manni, Þresti Árnasyni, sem varð að seilast djúpt í reynslubankann til að snúa erfiðu tafli sér í vil og knýja fram glæstan sigur. Björn Þorsteinsson lenti í óvenjulegu afbrigði spánska leiksins gegn Helga Brynjarssyni á 5. borði. Staðan var lengi tvísýn en svo fór að lokum að Helgi féll á tíma vígmóður en Björn lét sér hvergi bregða í öllum hamaganginum með sínu ljúfmannlega glotti. Á 6. borði velgdi Patrekur Maron Magnússon okkar manni, Tómasi Björnssyni, vel undir uggum og stóð um tíma mun betur en Tómas nýtti sér ónákvæmni andstæðingsins í flókinni stöðu, spýtti í lófana og neytti aflsmunar. Niðurstaðan varð því stórsigur Goðans, 5,5 vinningar gegn 0,5, á sprækum Hellisbúum sem eiga hrós skilið fyrir að tefla nútímalega þó svo að þeir geri það undir merkjum steinaldarmanna.
Öflug liðsheild
Frammistaða allra liðsmanna Goðans var með ágætum og framganga þeirra sem bestum árangri náðu ekkert annað en stórglæsileg. Liðið tapaði ekki viðureign og enginn keppenda tapaði skák í síðari hluta mótsins. Félaginu er mikill fengur í komu Kristjáns og Þrastar í félagið en Þröstur hafði ekki keppt á mótum um langt árabil og Kristján dregið nokkuð úr taflmennsku. Óhætt er að fullyrða að sveit Goðans hafi nú skipað sér á bekk með öflugustu keppnissveitum sem eingöngu eru skipaðar Íslendingum. Geta liðsmenn og velunnarar Goðans því hlakkað til spennandi viðureigna í 2. deild 2011 – 2012
Árangur liðsmanna Goðans í 5-7 umferð
1. borð Ásgeir P. Ásbjörnsson 2,5 v. af 3 (6,0 af 7)
2. borð Kristján Eðvarðsson 1,0 v. af 2 (1,0 af 2)
3. borð Einar Hjalti Jensson 2, 0 v. af 3 (5,0 af 7)
4. borð Þröstur Árnason 2,0 v. af 3 (2,0 af 3)
5. borð Björn Þorsteinsson 2,5 v. af 3 (6,0 af 7)
6. borð Tómas Björnsson 2,5 v. af 3 (5,5 af 7)
7. borð Jón Þorvaldsson 0,5 v. af 1 (1,5 af 3)
Goðinn óskar hinum vígreifu og vöðvastæltu liðsmönnum Víkingasveitarinnar til hamingju með sigurinn í 3. deild og hlakkar til að takast á við þá á nýjum vettvangi. Öllum keppendum og keppinautum Goðans er þökkuð vaskleg framganga, drengileg keppni og skemmtileg viðkynni. Jafnframt er ástæða er til að þakka forseta Skásambands Íslands, Gunnari Björnssyni, mótsstjórn, skákdómurum og öðrum starfsmönnum mótsins fyrir góða skipulagningu og þá miklu vinnu sem þarf til að hið fjölmenna Íslandsmót skákfélaga gangi snurðulaust fyrir sig. Þá er sérstök ástæða til að þakka Helga Árnasyni, skólastjóra Rimaskóla, fyrir að leggja skákmönnum til prýðilega aðstöðu og að skipuleggja sölu ljúffengra veitinga með sínum háttvísu nemendum.
Deildakeppnin er meðal helstu kennileita íslensks skáklífs. Það er von okkar Goðanna að þessi merka keppni megi skjóta enn dýpri rótum og kveikja nýja frjóanga áhuga og iðkunar.
Jón Þorvaldsson.

B-lið Goðans. Sigurður Jón, Páll Ágúst, Sveinn, Rúnar, Jakob og Smári.
Árangur B-liðs Goðans.
5. umferð. Goðinn B – Æsir (félag eldriborgara)
Stórsigur vannst á Æsi 5,5-0,5. Smári, Jakob, Rúnar, Sveinn og Sigurður Jón unnu sínar skákir og Páll Ágúst gerði jafntefli. Öruggur sigur og einmitt það sem þurfti til að koma liðinu í gang.
6. umferð. Goðinn B – Kórdrengirnir.
Mjög undarleg pörun. Lið kórdrengjanna var langt fyrir neðan B-liðið eins og staðan var þá og hefði verið eðlilegra að C-liðið hefði fengið þá. En hvað um það. B-liðið vann aftur stóran 6-0 sigur.
Sigurður Jón, Páll, Sveinn, Rúnar og Jakob unnu og Smári fékk ekki andstæðing.
Páll Ágúst Jónsson tefldi sínar fyrstu skákir fyrir Goðann á mótinu.
7. umferð. Goðinn B – Víkingaklúbburinn B
Ljóst var að B-liði varð að vinna síðustu viðureignina til að eiga möguleika á að ná 3. sætinu. Best hefði verið að fá Austfirðinga, því sigur gegn þeim hefði tryggt þriðja sætið í deildinni, því þá hefðu önnur úrslit ekki haft nein áhrif á stöðu B-liðsins. En pörunin var okkur óhagstæð og Víkingaklúbburinn – B var niðurstaðan. Sú viðureign tapaðist 2-4. Páll Ágúst, Sveinn, Jakob og Smári gerðu jafntefli en Rúnar og Sigurður Jón töpuðu. Þar með var ljóst að B-liðinu tækist ekki að vinna sæti í 3. deildinni að ári og varð 8. sætið niðurstaðan og það þrátt fyrir að B-liði fengi næst flesta vinninga allra liða í 4. deildinni, heila 28 vinninga. Frekar súrt það.
C-lið Goðans. Sighvatur, Snorri, Bjössi, Valur og Hlynur.
Árangur C-liðs Goðans.
5. umferð. Goðinn C – Fjölnir C.
Góður sigur vannst á Fjölni C 4-2. Valur, Snorri, Sighvatur og Benedikt Þorri unnu sínar skákir en Bjössi og Hlynur töpuðu.
6. umferð. Goðinn C – SFÍ
C-liðið tapaði stórt fyrir Skákfélagi Íslands 0-6. Ekki var við öðru að búast, enda liðsmenn SFÍ allir mikil stigahærri en okkar menn. Stigamunurinn var 800 til rúmlega 900 stig þar sem hann var mestur á efstu þremur borðunum. Hermann stóð þó lengi í Sigurði Daða Sigfússyni (2334) en Hermann lék skákinni niður í 35. leik. Eins stóð Sighvatur lengi í Erni Leó Jóhannssyni (1820).
Hermann, Sighvatur, Snorri, Bjössi, Valur og Hlynur tefldu gegn SFÍ.
7. umferð. Goðinn – C SA-d
C-liðið tapaði naumlega fyrir SA-d 2.5 – 3.5. Hlynur vann sína skák, Snorri, Bjössi og Sighvatur gerðu jafntefli en Hermann og Valur töpuðu.
C-liði endaði því í 15. sæti með 19 vinninga sem er framar vonum. Snorri, Valur og Hlynur voru að taka þátt í Íslandsmóti skákfélaga í fyrsta skipti og stóðu sig vel.
Árangur einstakra félagsmanna.
Sigurður Jón Gunnarsson 2 af 3
Páll Ágúst Jónsson 2 af 3
Sveinn Arnarson 2,5 af 3
Rúnar Ísleifsson 2 af 3
Jakob Sævar Sigurðsson 2,5 af 3
Smári Sigurðsson 2,5 af 3
Benedikt Þorri Sigurjónsson 1 af 1
Hermann Aðalsteinsson 0 af 2
Sighvatur karlsson 1,5 af 3
Snorri Hallgrímsson 1,5 af 3
Sigurbjörn Ásmundsson 0,5 af 3
Valur Heiðar Einarsson 1 af 3
Hlynur Snær Viðarsson 1 af 3
Hermann Aðalsteinsson formaður.
