30.6.2013 kl. 21:53
Hermann vann sigur í Kiðagili
Útiskákmót Goðans-Máta fór fram í Kiðagili í Bárðardal í heldur svölu veðri í dag. Sjö svölustu skákmenn félagsins mættu til leiks og hörkuðu af sér kuldann fram að síðustu umferð, en þá byrjaði að rigna. Síðasta umferðin var því tefld innandyra.
Tímamörkin í mótinu voru 10 mín á mann og fóru leikar þannig að Hermann formaður vann allar sínar skákir utan eina, gegn Hlyn Snæ Viðarssyni, sem mátaði formanninn laglega. Umræddur Hlynur, Sighvatur og Sigurbjörn komu næstir formanni að vinningum með 4 vinninga hver.
Aðrir keppendur, ungir að árum með framtíðina fyrir sér, fengu færri vinninga í Kiðagili í dag.
Það var hressandi að fá sér kaffi og kökur á rómuðu kaffihlaðborði í Kiðagili að móti loknum.