18.2.2013 kl. 22:58
Stefán Kristjánsson sigraði á Fastus mótinu 2013
Vel heppnuðu
Fastus móti Goðans-Máta er nú lokið eftir skemmtilega keppni. Stefán
Kristjánsson, stórmeistari, varð hlutskarpastur 30 keppenda, hlaut 6 vinninga
af 7 mögulegum. Hann kom greinilega vel undirbúinn til leiks og var sá eini
keppenda sem tapaði ekki skák. Úrslit
mótsin réðust í raun í 6. umferð þegar stórmeistararnir tveir, Stefán og
Þröstur, leiddu saman hesta sína en þeir voru jafnir og efstir fyrir þá rimmu.

Bergþóra Þorkelsdóttir afhendir Stefáni Kristjánssyni verðlaunin fyrir 1. sætið.
Í 2.-4. sæti
á mótinu urðu kapparnir Sigurbjörn Björnsson, fidemeistari, Karl Þorsteins, alþjóðlegur
meistari, og Þröstur Þórhallsson, stórmeistari, með 5 vinninga hver. Rétt á
hæla þeirra með 4,5 vinninga komu Ingvar Þór Jóhannesson, fidemeistari, Jón
Viktor Gunnarsson, alþjóðlegur meistari, unglingurinn efnilegi Daði Ómarsson og
fidemeistarinn margreyndi, Benedikt Jónasson, sem átti flottan endasprett,
hlaut 4 vinninga úr síðustu 5 skákunum.


Í 9.-13. sæti með 4 vinninga urðu svo
fidemeistarinn Andri Áss Grétarsson, sem teflir afar sjaldan núrorðið,
Þorsteinn Þorsteinsson, fidemeistari, Lenka Ptachnikova, stórmeistari kvenna,
Einar Hjalti Jensson, fidemeistari, og Þorvarður Ólafsson.

Góðir gestir
Fastus mótið
er eitt sterkasta mót ársins. Um er að ræða innanfélagsmót Goðans-Máta að
viðbættum góðum gestum sem setja skemmtilegan svip á mótið. Ólympíulið kvenna var
meðal boðsgesta að þessu sinni og stóðu þær valkyrjur sig með miklum sóma. Hallgerður
Þorsteinsdóttir lagði m.a. Björn Þorsteinsson, og Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
gerði sér lítið fyrir og sigraði Benedikt Jónasson en hástökkvari mótsins í
stigum talið var Elsa María Kristínardóttir sem hækkaði um 25,8 eló-stig.

Áhersla á lítt virka skákmenn
Í Fastus
mótinu er annars lögð sérstök áhersla á þátttöku skákmanna, sem hafa lítið
teflt síðustu árin eða jafnvel áratugina. Það er afar ánægjulegt að laða menn eins
og Karl Þorsteins og Þröst Árnason aftur að skákborðinu – kempur sem hafa ekki
teflt á kappskákmótum, fyrir utan Íslandsmót skákfélaga, í áratugi. Fyrirkomulag mótsins hefur þann stóra kost að aðeins
er teflt einu sinni í viku, þannig að þeir sem njörvaðir eru niður við dagleg
störf eða nám hafa svigrúm til að taka þátt og hafa næði til þess að undirbúa
sig af kostgæfni. Greinilegt að þessi tilhögun á framtíðina fyrir sér. Hún mælist
almennt vel fyrir meðal íslenskra skákmanna og nægir þar að nefna Öðlingamót TR
sem eru jafnan fjölsótt.

Þó að hart
væri barist á mótinu var skemmtilegt samneyti, spjall og spaug snar þáttur í upplifuninni.
Goðinn-Mátar þakkar keppendum drengilega framgöngu, gestum góð viðkynni og
áhorfendum áhugann. JÞ.
