2.11.2012 kl. 11:12
Þröstur með jafntefli í lokaumferðunum
Stórmeistarinn Þröstur Þórhallsson (2436) gerði stutt jafntefli í 8. og 9. umferð Basingstoke-mótinu en mótinu lauk nú nýlega með tveimur síðustu umferðunum. Í fyrri umferð dagsins gerði hann jafntefli við enska alþjóðlega meistarann Jonathan Hawkins (2511) en í þeirri síðari við enska stórmeistarann Keith Arkell (2456). Þröstur hlaut 5½ vinning og endaði í 2.-9. sæti. Enski alþjóðlegi meistarinn Ameet Ghasi (2430) vann mótið en hann hlaut 6½ vinning.

Árangur Þrastar samsvaraði 2420 skákstigum og lækkar hann um heilt stig fyrir frammistöðu sína.
24 skákmenn tóku þátt í efsta flokki mótsins og þar af voru 4 stórmeistarar. Þröstur var nr. 6 í stigaröð keppenda. Tefldar voru tvær skákir alla keppnisdaga mótsins nema þann fyrsta.
