23.7.2010 kl. 22:32
Í dag fór fram útifjöltefli Goðans á Húsavík í rjómablíðu. Þeir sem áhuga höfðu gátu teflt við Norðurlandsmeistarann í skák 2010, sem er Áskell Örn Kárason. 21 skákmenn nýttu sér það.
Jón Kristinn Þorgeirsson SA. gegn Áskeli. Mynd: Hafþór Hreiðarsson. (640.is)
Áskell vann 19 skákir, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák.
Fleiri myndir frá fjölteflinu er að sjá í myndaalbúmi hér til hægri.
Fleiri myndir munu svo bætast við á næstunni.
Hér fyrir neðan er svo pistill frá Sighvati Karlssyni um fjölteflið, en hann skipulagði það afar vel í fjarveru formanns og á hrós skilið fyrir framtakið.
Sighvatur Karlsson og hatturinn góði, sem Sighvatur neiddist til þess að éta. Mynd: Hafþór H.
Hvað á leðurhattur og skák sameiginlegt?
Skákfélagið Goðinn stóð fyrir útifjöltefli á Mærudögum á Húsavík í blíðskaparveðri í dag á palli í bakkanum vestur af kirkjunni. Norðurlandsmeistarinn 2010 í skák Áskell Örn Kárason gaf kost á sér til að tefla við hvern sem var. Ritari félagsins, sr. Sighvatur Karlsson var efins um að nokkur myndi mæta og sendi áskorun í fjölmiðla þess efnis að ef tækist að manna borðin tíu væri hann tilbúinn að éta hattinn sinn. Undrun hans varð mikil þegar til kom. Leikar fóru þannig að borðin tíu mönnuðust tvisvar og einum betur en 21 tóku þátt í fjölteflinu, þar af ein kona, Ólöf Þorsteinsdóttir úr Mosfellsbæ. Áskell vann 19 skákir og gerði eitt jafntefli við Smára Ólafsson, Skákfélagi Akureyrar, sem hjólaði í fjóra klukkutíma frá Akureyri til að tefla í mótinu. Áskell tapaði einni skák fyrir Gunnari Sigurðssyni frá Keflavík. Ritarinn undirbjó sig vandlega fyrir þetta mót, ekki síst vegna áskorunar sinnar sem hann birti í fjölmiðlum og fékk konu sína, prestsfrúna, til að baka hattaköku kvöldið áður því að ekki treysti hann sér til að éta leðurhattinn sinn nema með töluverðri fyrirhöfn, suðu og þess háttar. Hattakakan var súkkulaðikaka sem ritarinn gæddi sér á með bestu lyst og aðrir lysthafendur í útifjölteflinu. Var þetta hin besta skemmtun og er komin til að vera framvegis á Mærudögum á Húsavík. Má segja að skákin sé búin að koma sér rækilega á kortið á þeim skemmtilega árvissa vettvangi. Sighvatur Karlsson, ritari Skákfélagsins Goðans.

Smári Ólafsson frá Akureyri, lagði töluvert á sig til þess að taka þátt í fjölteflinu, en hann hjólaði frá Akureyri til þess.
Frétt á skarpur.is http://www.skarpur.is/frett.asp?fID=3581
Frétt 640.is http://www.640.is/news/fjoltefli_a_maerudogum/