Jólapakkaskákmóti Hugins og Breiðabliks var haldið í 22 sinn í Álfhólsskóla þann 19. desember sl. Mótið var  nú sem áður eitt fjölmennasta barna- og unglingamót ársins. Þetta er fjórða árið í röð sem mótið fer fram í Álfhólsskóla og að þessu sinni tóku 176 þátt. Þótt fjöldinn væri meiri en áður var uppsetningin mótsins auðveld með matsal í Álfhólsskóla sem rúmar rúmlega 100 manns að tafli og stutt í kennslustofur til að bæta við flokkum að tafli eftir þörfum.

Eftir flutninginn í Álfhólsskóla var gerð sú breyting á mótshaldinu að hætt var að mestu að nota Monradspjöldin og flestir flokkar keyrðir á tölvu. Þar eru hvítir veggir sem hægt er varpa pörun hverrar umferðar á. Það hefur ekki tekist alveg vegna ýmissa ástæðna eins og tölvubilana. Núna komust við næst því að losna alveg við þau því aðeins var notast við þau í peðaskákinni. Þar tóku aðeins þrír þátt svo tölva eða ekki tölva skipti ekki öllu máli. Í happdrættinu er dregið með tölvu og í lokahappdrættinu eru allir flokkar sameinaðir í eitt excel skjal fyrir dráttinn. Að þessu sinni dró Jóhanna Björg númerin með símanum og Elín Edda fann vinningshafann í tölvunni. Það er sennilega besta fyrirkomulagið á happdrættinu síðan monradspjöldin voru veidd upp úr kassa.

Búið var að forskrá alla keppendur í mótið kvöldið áður en í svona fjölmennu móti þurfti nokkrar tilfæringar við að bæta nýjum keppendum inn sem skráðu sig um morguninn, eða jafnvel á skákstað og fella út þá sem ekki mætttu og jafnvel bæta sumum inn aftur þegar þeir birtust móðir og másandi. Þannig að mótið byrjaði í seinna falli og komst ekki fullan gang fyrr en búið var endurræsa eins og einn Swiss Manager og einn skákstjóra sem stóðu eitthvað á sér.

Teflt var í sex flokkum og voru keppendur allt frá 5 ára aldri og upp í 15 ára aldur. Margir sterkir skákmenn hófu sinn skákferil á Jólapakkamótinu og fyrstu mótunum má finna sigurvegara eins og Braga Þorfinnsson, Dag Arngrímsson, Davíð Kjartansson og Guðmund Kjartansson. Nú sem endranær tóku flest allir sterkustu skákmenn landsins af yngri kynslóðinni þátt.

Þátttakendur komu úr 30 skólum og leikskólum sem er svipaður fjöldi skóla og verið hefur. Flestir komu úr Álfhólsskóla eða 27 enda á heimavelli en í þetta sinn dró mjög saman með þeim og næstu skólum. Næstir komu svo Vatnsendaskóli með 20 þátttakendur, Rimaskóli með 16 þátttakendur, Lindaskóli með 15 þátttakendur, Ísaksskóli og Langholtsskóli með 13 þátttakendur og Breiðholtsskóli með 11 þáttakendur.

Úrslitin eru ekki aðalatriðið á jólapakkamótinu heldur að taka þátt og gleðja sig og aðra. Allir keppendur mótsins voru leystir út með nammi frá Góu-Lindu og Andrésblaði frá Eddu útgáfu. Allir verðlaunahafar fengu jólapakka sem og heppnir keppendur.


Í pökkunum voru meðal annars: heyrnartól, hátalarar, bækur af ýmsu tagi og þar á meðal skákbækur, dót af ýmsu tagi, púsluspil, töfl, leikir og fleira. Það voru Heimilistækjum/Tölvulistanum, Ferill verkfræðistofa, Skáksamband Íslands og Bókabeitan bókaútgáfa sem gáfu gjafir í pakkana.

Eftirtaldir studdu við mótið og er þeim færðar miklar þakkir fyrir:

ALARK arkitektar, HK, Allt í múrverk, ÁF hús, Álfhólsskóli, Bakarmeistarinn í Suðurveri, Bílahúsið, Body Shop, Dominos, Energia, Guðmundur Arason smíðajárn, Gullkistan, HBTB, Hjá Dóra matstofa, Hörðuvallaskóli, Íslandsspil, ÍTR, Kópavogsbær, Kópavogsskóli, Lindaskóli, Olís, Reykjavíkurborg, Salaskóli, Sjóvá, Smáraskóli, Suzuki bílar og Vatnsendaskóli.

Mót eins og Jólapakkamótið fer ekki fram án öflugra starfsmanna. Eftirtaldir starfsmenn komu að mótinu:

Edda Sveinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Elín Edda Jóhannsdóttir, Halldór Grétar Einarsson, Einar Birgir Steinþórsson, Anna Guðný Björnsdóttir, Davíð Ólafsson, Gunnar Björnsson, Hjörvar Steinn Grétarsson, Heimir Páll Ragnarsson, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Helgi Ólafsson, Vigfús Ó. Vigfússon, Erla Hlín Hjálmarsdótir, Lenka Ptacnikova, Pálmi R. Pétursson, Páll Sigurðsson, Jóhann Tómas Egilsson, Arnar Ingi Njarðarson, Mikael Bjarki Heiðarsson, Kristín Jónsdóttir, Ingvar Þór Jóhannesson og Kristófer Gautason. Auk þess aðstoðuðu fjöldi foreldra og keppenda við tiltekt að móti loknu sem gekk það vel að mótið kláraðist upp úr kl. 16 með verðlaunafhendingu og tiltekt var lokið um rúmlega kl. 17 sem er vel að verki staðið miðað við umfang mótssins. Allir þessi aðilar fá bestu þakkir fyrir.

Fá allir þessir aðilar bestu þakkir fyrir.

En þá eru það úrslitin.

A-flokkur (2004-06)

Benedikt Briem vann flokkinn með 5,5v af 6 mögulegum. Í öðru sæti var Benedikt Þórisson með 5v og þriðja sæti var Örn Alexandersson með 4v (21 stig).

Í happdrætinu í flokknum voru dregnir út: Alexander Már Bjarnþórsson og Davíð Tómasson.

17 tóku þátt.

Nánar á Chess-Results.

B-flokkur (2007-08):

Gunnar Erik Guðmundsson sigraði með fullu húsi 6v af 6 mögulegum, Rayan Sharifa og Ingvar Wu Skarphéðinsson urðu í 2 og 3. sæti með 5v.

Batel Goitom Haile varð efst stúlkna með 4v og 23 stig. Iðunn Helgadóttir var önnur með 4v og 19,5 stig. Þriðja var svo Sara Sólveig Lis me9 3,5v.

Í happdrætinu í flokknum voru dregnir út: Dagur Tumi Guðmundsson, Klemenz Árnason, Brynjar Dagur Árnason og Guðbrandur Kári Sigurvinsson.

31 tóku þátt.

Nánar á Chess-Results.

C-flokkur: (2009-10):

Efstir af strákunum voru: Matthías Kjartansson með fullt hús 5v af fimm mögulegum, annar var Einar Dagur Brynjarsson með 4,5v og þriðji Arnar Logi Kjartansson með 4v.

Efstu stelpurnar voru: Guðrún Fanney Briem með 4v og 16 stig, önnur var Nikola Klimaszewska einnig með 4v en 13,5 stig og þriðja var Þórhildur Helgadóttir með 3,5v.

Í happdrættinu í flokknum voru dregin út: Ólafur Fannar Pétursson, Markús Orri Jóhannsson, Alexandra Rós Hjörvarsdóttir og Agla Björk Egilsdóttir.

51 tóku þátt.

Nánar á Chess-Results:

D-flokkur (2011-12):

Efstir strákanna voru: Arnar Freyr Orrason með fullt hús 5v af fimm mögulegum, annar var Jón Björn Margrétarson með 4v og 17 stig og þriðji var Neno Veraja með 4v og 16 stig.

Emilia Embla B. Berglindardóttir var efst stúkna með 4v og 13 stig. Önnur var Inga Jóna Haarde Vignisdóttir með 4v og 10 stig. Þriðja var svo Wihbet Goitom Haile með 3v.

Í happdrættinu í flokknum voru dregin út: Jón Sölvi Sigurðarson, Gerður Helgadóttir, Eyþór Vignisson og Hlynur Tumi Hreinsson.

50 tóku þátt.

Nánar á Chess-Results:

E-flokkur (2013 og yngri):

Lemuel Goitom Haile sigraði með fullu húsi 5v af fimm mögulegum. Ómar Jón Kjartansson og Tristan Fannar Jónsson voru í 2. og 3. sæti með 4v.

Katrín Ronja Stefánsdóttir, Ingibjörg Eva Árnadóttir og Stefanía Bryndís Axelsdóttir voru efstar stúlkna.

Í happdrættinu í flokknum voru dregin út:

24 tóku þátt.

Nánar á Chess-Results:

Peðaskák (2014 og yngri)

Þrjú voru með í peðaskákinni að þessu sinni. Matthías Kári Jóhannsson var efstur, næstur kom Hafþór Haarde Vignisson og svo Sveinbjörn Frosti Kjartansson.

Alls tóku 3 þátt.

Happdrættin

Í hverjum flokki voru dregnir út heppnir keppendur og var reynt að hafa fjölda vinninga í samræmi við fjölda keppenda í hverjum flokki miðað við skráninguna þegar pakkarnir voru útbúnir. Í lokin var svo happdrætti þar sem allir áttu jafna möguleika og þar var dregin út fjöldi verðlauna. Smellt var af mynd af hinum heppnu eins sést hér fyrir ofan.

Skákfélagið Huginn og Skákdeild Breiðabliks þakkar öllum krökkunum kærlega fyrir þátttökuna!