A-sveit Goðans taplaus á Íslandsmótinu. Liðsstjóra pistill.

Jón Þorvaldsson liðsstjóri A-liðs Goðans skrifaði pistil um frammistöðu A-liðsins í fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem er birtur hér fyrir neðan í heild sinni. Pistill frá formanni er væntanlegur í kvöld eða á morgun. 

Helgina 8. – 10 . okt. þreytti A-sveit Goðans frumraun sína í 3. deild Íslandsmóts skákfélaga og stóð sig með sóma. Goðinn hafði safnað vösku liði  enda uggði menn að þriðja deildin yrði mun strembnari Herðubreið að klífa en sú fjórða, sem og kom á daginn. Kapparnir Ásgeir P. Ásbjörnsson, Einar Hjalti Jensson,  Björn Þorsteinsson og Tómas Björnsson höfðu gengið til liðs við Goðann fyrir þessa leiktíð en fyrir voru kempurnar Sigurður J. Gunnarsson, Sindri Guðjónsson og Jón Þorvaldsson, liðsstjóri.

ís 2010 009
 

Ásgeir, Hermann, Hlynur, Valur, Smári, Sindri, Pétur, Rúnar, Benedikt, Jakob, Bjössi, Sigurður, Björn, Sighvatur, Tómas, Einar og Jón gestgjafi. Svein, Snorra, Viðar og Andra vantar á myndina. 

Undirbúningur var góður. Keppendur höfðu æft saman um nokkurra vikna skeið undir öruggri stjórn þjálfara liðsins, Einars Hjalta, farið yfir valdar byrjanir og eflt með sér liðsanda undir forystu Tómasar Björnssonar. Lokahnykkur undirbúningsins var svo föstudagsdaginn 8. okt.  þegar liðsmenn Goðans úr öllum þremur sveitunum hittust yfir léttum málsverði.


ís 2010 006
 

Léttur kvöldverður fyrir átökin á föstudaginn. 

Mannýgir hrútar

Það var glatt á hjalla þessa síðdegisstund en skemmtilegu samneyti lauk með orðum formannsins, Hermanns Aðalsteinssonar, sem eggjaði menn til dáða, gráa fyrir járnum. Í bálokin gall við í einum árvökulum félaganum að umfram allt skyldu menn vara sig á bévítis gemsunum og helst umgangast þá eins og mannýga hrúta.  Vissast væri  slökkva á þeim strax, taka rafhlöðurnar úr,  geyma gemsana í bílunum og leggja a.m.k. 100 metrum frá skákstaðnum. Slík væri váin. Síst mætti henda að góðri taflmennsku væri spillt með jarmandi gemsa sem leiddi beint til taps, viðkomandi skákmanni til hneisu og öðrum keppendum til armæðu og hugmyndateppu.

ís 2010 012
 

Goðinn – Sf Vinjar í 1. umf. Einar, Björn, Tómas, Sigurður og Sindri. 

Í fyrstu umferð á föstudagskvöldið var tekist á við skákfélagið Vinjar. Þeir kappar eru margreyndir og ólseigir en góður sigur hafðist að lokum, 5 – 1, sem skaut Goðanum rakleiðis í 2. sætið. Í fyrri umferðinni á laugardeginum var röðin komin að B sveit KR sem var ein allra sterkasta sveitin í 4. deildinni í fyrra. Eftir snarpa viðureign hafðist sigur, 4 – 2, en óvænt tap á báðum neðstu borðum kom í veg fyrir enn stærri sigur.

Spennan magnast

Spennan magnaðist og síðari viðureign dagsins var sannkallaður stórislagur gegn hinum snjöllu og vöðvastæltu liðsmönnum Víkingasveitarinnar. Sveitirnar eru nánast hnífjafnar  í skákstigum talið og svo römm var viðureignin að brakaði í hverju borði enda ekki við öðru að búast þegar goðar og víkingar reyna með sér í rammheiðnum anda.  Niðurstaðan varð 3 – 3 þar sem jafnt var á öllum borðum nema hvað Ásgeir lagði sinn andstæðing á 1. borði á afar sannfærandi hátt en skákin á 6. borði tapaðist örugglega. Sigur Ásgeirs gegn hinum öfluga Fide meistara Davíð Kjartanssyni var þeim mun athyglisverðari þar sem sá síðarnefndi sá aldrei til sólar í skákinni. Slík var snilld Ásgeirs sem fyrir þetta mót hafði ekki komið nálægt keppnisskák í fjölda ára. Mikill fengur er fyrir íslenska skákíþrótt að fá Ásgeir aftur að reitunum hvítu og svörtu.

ÍS 2010 013
 

Goðinn- Víkingaklúbburinn. Ásgeir með hvítt gegn Davíð Kjartanssyni.

Í lokaumferðinni á sunnudag tefldi Goðinn við A-sveit Garðabæjar sem var í efsta sæti fyrir umferðina, stigi á undan okkar mönnum. Líkt og í viðureigninni við Víkingasveitina var sennan afar hörð og niðurstaðan aftur jafntefli. Nú varð það hinn margfaldi Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari og Ólympíufari Björn Þorsteinsson sem hélt uppi heiðri Goðans með góðum endataflssigri á hinum ágæta skákmanni Jóni Þór Bergþórssyni en skákin á 6. borði tapaðist þó að vænlega horfði þar framan af.

ís 2010 025
 

              Tómas Björnsson og Björn Þorsteinsson. 

Að loknum fjórum umferðum eru sveit Garðbæinga og Víkingasveitin jafnar í efsta sæti með 7 stig og en þessar sveitir leiða saman riddara sína í 5. umferðin í mars nk. Í 3-5. sæti eru svo B sveit Vestamannaeyinga, B sveit Akureyringa og Goðinn með 6 stig en þessar fimm sveitir munu greinilega berjast til þrautar um tvö efstu sætin sem veita rétt til keppni í 2. deild leiktíðina 2011 – 2012.


ís 2010 026
 

                    Sindri Guðjónsson og Sigurður Jón Gunnarsson.

Góð liðsheild

Um frammistöðu einstakra liðsmanna er það að segja að Ásgeir og Björn fóru á kostum, hlutu hvor um sig 3,5 vinninga af 4. Einar Hjalti  og Tómas voru líka mjög öflugir, skiluðu sveitinni 3 vinningum af 4 hvor. Jón tefldi upp á öryggið og gerði jafntefli í báðum sínum skákum. Hinir snjöllu skákmenn Sigurður Jón og Sindri voru fjarri sínu besta að þessu sinni enda báðir langþreyttir eftir mikla vinnu vikurnar fyrir mótið. Það sem öllu skiptir er að heildarframmistaða Goðans var mjög góð og geta keppendur og stuðningsmenn sannarlega hlakkað til spennandi úrslitaumferða á næsta ári.

ís 2010 024
 

                 Einar Hjalti Jensson og Ásgeir Ásbjörnsson. 

Keppendum Goðans er þökkuð vasklega framganga og keppinautum Goðans þökkum við drengilega keppni og skemmtileg viðkynni. Jafnframt er ástæða er til að þakka forseta Skásambands Íslands, Gunnari Björnssyni, og starfsmönnum mótsins fyrir góða skipulagningu og þá miklu vinnu sem þarf til að hið fjölmenna Íslandsmót skákfélaga gangi snurðulaust fyrir sig. Þá er sérstök ástæða til að þakka Helga Árnasyni, skólastjóra Rimaskóla, fyrir að leggja skákmönnum til prýðilega aðstöðu til iðkunar þessarar merku íþróttar hugans sem nýtur vaxandi og verðskuldaðrar lýðhylli.

ís 2010 041

Jón Þorvaldsson liðsstjóri A-liðs Goðans.