13.4.2011 kl. 12:37
Aðalfundur Goðans var haldinn sl. mánudag.
Aðalfundur skákfélagsins Goðans var haldinn á mánudagskvöldið á Húsavík. 10 félagsmenn sátu fundinn. Sighvatur Karlsson var endurkjörinn í stjórn sem ritari en fyrir eru í stjórn, Hermann Aðalsteinsson formaður og Sigurbjörn Ásmundsson gjaldkeri. Smári Sigurðsson var kjörinn fyrsti varamaður í stjórn í stað Ketils Tryggvasonar.

Fram kom í máli formanns á fundinum að árið 2010 hefði verið félaginu afar gjöfult. Mikil fjölgun félagsmanna hefði orðið á árinu og Goðinn væri fjórða stærsta skákfélagið utan höfðaborgarsvæðisins og það 9 stærsta á landinu miðað við fjölda félagsmanna.
Félagið sendi í fyrsta skipti 3 keppnislið á Íslandsmót skákfélaga og A-liðinu tókst að vinna sig upp í 2. deild að ári. Fjárhagsstaðan er góð og velta skákfélagsins hefði aukist um helming frá 2009.
Fram kom að þessa daganna væri verið að ganga frá samningi félagsins við sveitarfélagið Norðurþing (Húsavík-Kópasker-Raufarhöfn) um áframhaldandi skákkennslu fyrir grunnskólanemendur í Norðurþingi og yrði hann undirritaður á næstu dögum.
Samþykkt var á fundinum að leggja skákæfingar af á Laugum vegna slakrar mætingar þar í vetur, þannig að frá og með september 2011 verði skákæfingar einungis á Húsavík. Öll stærri skákmót félagsins verða einnig á Húsavík en amk. tvö styttri árleg mót verði á Laugum. Vikulegar skákæfingar verða á mánudagskvöldum
Formaður skýrði einnig frá áformum, sem eru enn á undirbúnings stigi, um að halda stórt alþjóðlegt skákmót á Húsavík árið 2012.
Sjá skýrslu stjórnar hér fyrir neðan.
