14.1.2014 kl. 09:47
Adam, Stefán Orri og Óskar Víkingur aldursflokkameistarar á Íslandsmóti barna

Félagsmenn úr GM Hellli náðu góðum árangri á nýafstöðnu Íslandsmóti barna sem er fyrir skákmenn 10 ára og yngri. Keppnisfyrirkomulagið var á þann máta að þeir keppendur sem voru með þrjá vinninga úr fyrstu fimm umferðum mótsins fengu að halda áfram keppni í síðustu fjórar umferðir mótsins, en það voru 44 keppendur alls sem komust áfram. Samkeppnin var því hörð en 90keppendur tóku þátt í mótinu, auk 17 keppenda í peðaskák.
Óttar Örn Bergmann Sigfússon og Aron Kristinn Jónsson sem nýlega eru byrjaðir að æfa með félaginu komust ekki í gegnum síuna að þessu sinni, en stóðu sig engu að síður með stakri prýði. Ellefu keppendur frá GM Helli náðu þeim árangri að komast áfram. Það voru Óskar Víkingur Davíðsson,Halldór Atli Kristjánsson, Stefán Orri Davíðsson, Sindri Snær Kristófersson, Axel Óli Sigurjónsson, Egill Úlfarsson, Baltasar Máni Wedholm, Brynjar Haraldsson, Ívar Andri Hannesson, Birgir Logi Steinþórsson og Adam Omarsson, en úrslit mótsins má finna hér.
Halldór Atli, Stefán Orri, Sindri Snær, Axel Óli og Egill skipuðu sér allir í fremstu röð og luku keppni með 6 vinningum, í 8. til 20. sæti í mótinu. Óskar Víkingur blandaði sér í toppbaráttuna en hann og ríkjandi Íslandsmeistari, Vignir Vatnar Stefánsson unnu allar aðrar sínar skákir fyrir utan jafntefli sín á milli í 7. umferð. Óskar og Vignir Vatnar tefldu því tvær skákir til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem Vignir Vatnar hafði betur. Óskar hlaut því annað sætið í mótinu, en þess má geta að hann er átta ára og hefur því keppnisrétt á Íslandsmóti barna í tvö ár í viðbót.
Á Íslandsmóti barna eru veittar viðurkenningar fyrir hvern aldursflokk, en Adam Omarsson varð meistari 6 ára keppenda, Stefán Orri Davíðsson varð meistari 7 ára keppenda og Óskar Víkingur Davíðsson varð meistari 8 ára keppenda. GM Hellir óskar þessum efnilega keppendahóp til hamingju með árangurinn.
