Þriðja umferðin á Skákhátíð MótX, sem tefld var 23. janúar, bauð upp á hatramma baráttu á flestum borðum og óvenju marga afleiki þar sem jafnvel sómakærar drottningar féllu í öngvit og hröpuðu fyrir björg. Á efsta borði áttust við Jóhann Hjartarson og Björgvin Jónsson. Jóhann tefldi hvasst með hvítu og uppskar mun rýmri stöðu. Hann þjarmaði að Björgvin sem varðist með bakið upp við vegg allt þar til Jóhann varð sleginn skákblindu er hann hugðist beita laglegum lokahnykk en glataði drottningunni þess í stað bótalaust. Á öðru borði tókust Halldór Grétar og Guðmundur Halldórsson á í mikilli baráttuskák þar sem Guðmundur lék af sér manni með unna stöðu.

 

Björn Þorfinnsson og Jón L. tefldu stöðubaráttuskák þar sem Björn hafði betur með þungskeyttri kóngssókn. Björn hefur á undanförnum árum dempað sinn villta sóknarstíl með ágætis árangri en þarna ráku taktísk tilþrif smiðshöggið á skemmtilega skák. Kristján Eðvarðsson beitti frumlegri uppstillingu með hvítu gegn Þresti Þórhallssyni en Kristján hefur greinilega gengið í smiðju til Karens Movsziszian, hins geðþekka stórmeistara og liðsmanns Hugins. Þröstur var lengi að átta sig á stöðunni en smám saman tókst stórmeistaranum bæta sína stöðu og svo fór að hann hrósaði sigri eftir að Kristján lék af sér drottningunni í þröngri stöðu.

Þorsteinn Þorsteinsson og Daði Ómarsson áttust við í hörkuskák þar sem Þorsteinn lagðist þungt á árar og knúði fram sigur með óstöðvandi frípeði á c-línunni. Örn Leó Jóhannsson og Baldur Kristinsson tefldu alveg inn að beini og sömdu ekki fyrr en eftir mannfall mikið í liði hvorratveggju. Einar Hjalti lét ófriðlega með hvítu gegn Degi Ragnarssyni, fórnaði skiptamuni og uppskar sigur eftir grimmilega dalshríð að berskjölduðum kóngi Dags.

Vignir Vatnar tefdi frumlega með hvítu gegn Ásgeiri Ásbjörnssyni sem var fastur fyrir og djúpúðugur að vanda. Var samið um jafntefli þegar ljóst varð að hvorugum veitti betur í dýnamísku jafnvægi. Benedikt Jónasson hafði hvítt gegn Sigurði Daða. Benedikt tefldi byrjunina vel, átti sjallt gegnumbrot sem knúði Daða til að láta af hendi skiptamun til að halda lífi í skákinni. Upp kom görótt staða þar sem Benedikt uggði ekki að sér, tapaði manni bótalaust og þar með skákinni. Bárður Örn Birkisson og Lenka tefldu lengstu skák kvöldins þar sem Lenka hafði peði yfir í hróksendatafli en ungi maðurinn stóðst þolraunina og hélt jöfnu.

Spennandi viðureignir í 4. umferð

Efstir eftir þrjár umferðir eru Hjörvar Steinn, Björgvin Jónsson og Halldór Grétar með tvo og hálfan vinning hver. Þriðjudaginn 30. janúar kl. 19.30 verður baráttunni haldið áfram. Hjörvar Steinn situr yfir en á efsta borði reyna forystusauðirnir Björgvin og Halldór Grétar með sér. Sjá aðrar viðureignir hér:

Skákháíð MótX – 4. umferð 
Nafn Stig Vinn. Vinn. Nafn Stig
IM Jonsson Bjorgvin  2349 FM Einarsson Halldor Gretar  2236
FM Thorsteinsson Thorsteinn  2327 2 2 GM Hjartarson Johann  2536
GM Thorhallsson Throstur  2418 2 2 IM Thorfinnsson Bjorn  2400
GM Arnason Jon L  2457 Johannsson Orn Leo  2200
Kristinsson Baldur  2185 FM Ulfarsson Magnus Orn  2371
Halldorsson Gudmundur  2174 FM Johannesson Oliver  2277
FM Johannesson Ingvar Thor  2352 1 1 Edvardsson Kristjan  2184
FM Jonasson Benedikt  2248 1 1 FM Stefansson Vignir Vatnar  2304
Omarsson Dadi  2275 1 1 CM Birkisson Bardur Orn  2190
WGM Ptacnikova Lenka  2218 ½ 0 FM Ragnarsson Dagur  2332
GM Gretarsson Hjorvar Steinn  2565 not paired
GM Stefansson Hannes  2523 2 not paired
IM Gunnarsson Jon Viktor  2466 2 not paired
GM Gretarsson Helgi Ass  2441 2 not paired
IM Jensson Einar Hjalti  2336 2 not paired
FM Asbjornsson Asgeir  2267 1 not paired
FM Sigfusson Sigurdur  2228 not paired

 

Hvítir hrafnar

Tvær frestaðar skákir voru tefldar þriðjudagsdkvöldið 23. jan. Friðrik Ólafsson og Jón Þorvaldsson gerðu stutt jafntefli en Bragi Halldórsson vann Jónas Þorvaldsson í langri baráttuskák.
Í þriðju umferð Hvítra hrafna 30. jan. hefur Jónas Þorvaldsson hvítt á Björn Halldórsson, Friðrik stýrir hvítum mönnunum gegn Braga Halldórssyni og Jón Þorvaldsson hefur hvítt gegn Júlíusi Friðjónssyni.

B-flokkurinn

Gauti Páll Jónsson teflir eins og sannur foringi í B-flokknum og vann sína þriðju skák þegar hann lagði Siguringa Sigurjónsson. Hann er einn efstur með fullt hús. Hilmir Freyr lagði Birki Karl með laglegum lokahnykkjum og ætlar sér örugglega að fylgja foringjanum fast eftir enda næstur honum í stigaröðinni.

Stórtíðindi urðu á 3ja borði þegar hinn efnilegi Stephan Briem vann góðan sigur á Birni Hólm. Tvíburabræðurnir hafa farið mikinn í íslensku skáklífi undanfarin ár og verið góðar fyrirmyndir sem sýna að ástundun er lykillinn að framförum. Stephan er að stimpla sig rækilega inn á meðal sterkustu ungu skákmannanna okkar, enda stundar hann skákina af krafti, er fullur einbeitningar á meðan á skákunum stendur, hógvær og með mikið keppnisskap.

Annað mikið efni er Aron Þór Mai en skákmenn virðast oft dafna best á meðal systkina. Aron Þór vann góðan sigur á reynsluboltanum Kristjáni Erni. Alexander Oliver, bróðir Arons Þórs, gerði svo gott jafntefli við Ólaf Evert.

Agnar Tómas og Kristófer tefldu hörkuskák. Kristófer vann peð og átti alla möguleika á því að vinna örugglega. En skákir vinnast ekki sjálfkrafa og Agnar Tómas náði sér í mótspil. Í kringum tímamörkin átti Agnar Tómas síðan leik sem hefði kallað á birtingu í skákdálkum blaðanna. En hann missti af honum og skákin endaði með þráskák Kristófers.

Í fjórðu umferð reynir Aron Þór að stöðva Gauta Pál. Á þriðja borði tefla ungstirnin Óskar Víkingur og Alexander Oliver. Augu margra munu svo beinast að sjötta borði þar sem félagarnir og skákpabbarnir Kristófer Ómarsson og Kristján Halldórsson munu ekki láta friðsamlega. Það er svo spurning hvort Freyja muni stríða Birni bróður sínum á áttunda borði. Annað uppgjör ungstirna verður á 9. borði á milli Róberts Luu og Benedikts Briem.

 

Skákhátíð MótX B-flokkur – 4. umferð 
Nafn Stig Vinn. Vinn. Nafn Stig
Jonsson Gauti Pall 2161 3 Mai Aron Thor 2066
CM Heimisson Hilmir Freyr 2136 2 Sigurjonsson Siguringi 2034
Davidsson Oskar Vikingur 1854 2 2 Mai Alexander Oliver 1970
Ulfsson Olafur Evert 1784 2 2 Sigurdsson Birkir Karl 1934
Einarsson Oskar Long 1785 2 2 Moller Agnar T 1925
Omarsson Kristofer 1744 2 2 Halldorsson Kristjan 1889
Eliasson Kristjan Orn 1846 2 Johannsson Birkir Isak 1760
Birkisson Bjorn Holm 2084 Birkisdottir Freyja 1483
Luu Robert 1680 Briem Benedikt 1464
Jonsson Olafur Gisli 1856 1 1 Sigfusson Ottar Orn Bergmann 1096
Heidarsson Arnar 1592 1 1 Steinthorsson Birgir Logi 1080
Gudmundsson Gunnar Erik 1491 1 1 Sigurdarson Alec Elias 1373
Alexandersson Orn 1366 1 1 Johannsson Hjortur Yngvi 1472
Davidsson Stefan Orri 1280 1 ½ Haile Batel Goitom 1421
Karlsson Isak Orri 1307 ½ ½ Gunnarsson Baltasar Mani Wedhol 1268
Hilmarsson Andri Steinn 1606 0 bye
Briem Stephan 1890 not paired
Jonatansson Sigurdur Freyr 1642 2 not paired