Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fór fram um sl. helgi í Rimaskóla í Reykjavík. Goðinn sendi 3 lið til keppni eins og í fyrra og má segja að gengi þeirra hafi verið alveg ágætt. A-liðið teflir annað árið í röð í 3. deild og er sem stendur í 4. sæti af 8 liðum. B og C-liðin eru bæði í 4 deild og staða þeirra beggja er ágæt. 4.deildin á chess-results. 28 lið tefldu í 4 deildinni sem er met og getum við Goðar gengið sáttir til hálfleiks.
A-liðið tapaði einni viðureign, gerði tvö jafntefli og vann eina viðureign. A-sveitin á þrjár viðureignir eftir og miðað við prógrammið fyrir seinni hlutann eru fínir möguleikar á því að ná í annað af tveimur efstu sætunum í deildinni, ef marka má stöðuna í deildinni. Allar viðureignirnar hafa þó verið jafnar og aldrei að vita hvað gerist. Jakob Sævar Sigurðsson var með besta vinningahlutfallið af liðsmönnum A-sveitarinnar, með 3 vinninga af 4 mögulegum og taplaus. Sjá nánar hér.
B- sveit Goðans er í 11. sæti með 4 punkta og 13,5 vinninga, eftir tvo sigra og tvö töp. Hilmar Freyr Birgisson stóð sig best af liðsmönnum B-sveitarinnar með 3,5 vinninga af 4 mögulegum. Sjá nánar hér.
C-sveitin er í 16. sæti einnig með 4 punkta eftir tvo sigra og tvö töp, en með 11 vinninga. Lárus Sólberg Guðjónsson fékk 3 vinninga af 4 mögulegum og stóð sig best af liðsmönnum C-sveitarinnar. Sjá nánar hér.
A og B-lið Goðans voru skipuð sömum mönnum á sömu borðum í öllum umferðum, sem hefur ekki gerst áður. Meiri inná skiptingar voru í C-liðinu þar sem 10 skákmenn tefldu amk. eina skák fyrir B-liðið.
Alls tefldu 22 skákmenn fyrir Goðann í þessum fyrri hluta. Adam Ferenc Gulyas og Jóhannes Már Sigurðarson tefldu sínar fyrstu skákir í deildó um helgina. Ingimar Ingimarsson var líka að tefla sína fyrstu skák fyrir Goðann í deildó, en hafði teflt með öðru félagi fyrir löngu síðan. Sigurður Eiríksson tefldi sínar fystu skákir með Goðanum en tefldi með SA í fyrra og líklega flest öll ár þar á undan.
Hér fyrir neðan eru myndir sem Hallfríður Sigurðardóttir tók. Ekki fundust myndir af öllum Goðamönnum.