Alec Elías Sigurðarson sigraði örugglega með 5v í fimm skákum á barna- og unglingaæfingu hjá Skákfélaginu Huginn sem haldin var 26. maí sl. Þetta var næst síðasta æfing á vormisseri og í fyrsta sinn sem Alec vann æfingu á þessum vetri. Fjórir voru svo jafnir með 3v en það voru Jón Hreiðar Rúnarsson, Heimir Páll Ragnarsson, Alexander Jóhannesson og Birgir Ívarsson. Af þeim var Jón Hreiðar hæstur á stigum og hreppti því annað sætið. Heimir Páll og Alexander voru efstir og jafnir á öllum stigum en Heimir Páll vann innbyrðis viðureignina og náði þar með þriðja sætinu. Það gefur eitt stig í stigakeppninni sem gæti orðið verðmætt þegar upp er staðið þótt Heimir Páll hefði eflaust viljað fá þrjú stig úr þessari æfingu.
Heimir Páll og Óskar Víkingur eru efstir og jafnir fyrir síðustu æfinguna með 38 stig og báðir með átta sigra á þessum vetri. Heimir Páll verður erlendis á lokaæfingu vetrarins sem fram fer mánudaginn 2. júní. Það nægir því Óskar að verða í einu af þremur efstu sætunum til að sigra í stigakeppni æfinganna en að öðrum kosti verða þeir jafnir. Dawid Kolka situr sem fastast í þriðja sæti stigakeppninnar með 29 og verður ekki haggað hvað sem gengur á í lokaæfingunni. Dawid er líka með átta sigra eins og efstu menn en æfingarnar sem hann hefur tekið þátt í eru færri. Vegna þess hve stigkeppnin er jöfn var ráðist í nákvæma yfirferð á skráningu úrslita og borið saman við skráningu stiga. Fundust við tvær villur sem vega hvor aðra upp hvað efstu menn varðar og breyttu þær ekki stöðunni nema þannig að bæði Heimir Páll og Óskar lækkuðu um tvö stig.
Í æfingunni tóku þátt: Alec Elías Sigurðarson, Jón Hreiðar RúnarssonAlec Elías Sigurðarson, Heimir Páll Ragnarsson, Alexander Jóhannesson, Birgir Ívarsson, Sævar Breki Snorrason og Aron Kristinn Jónsson.
Næsta æfing verður mánudaginn 2. júní og hefst hún kl. 17.15. Æfingarnar eru í Álfabakka 14a í Mjóddinni, gengið er inn milli Subway og Fröken Júlíu og salurinn er á þriðju hæð. Á lokaæfingunni verða veittar viðurkenningar fyrir veturinn sem eru þríþættar, þe. fyrir stigakeppnina, fyrir mætingu og fyrir framfarir í vetur. Til að hljóta viðurkenning fyrir góða mætingu þarf að hafa mætt a.m.k. 20 sinnum í vetur. Þeir sem hafa mætt 19 sinnum eða oftar eru: Halldór Atli Kristjánsson, Alec Elías Sigurðarson, Brynjar Haraldsson, Óskar Víkingur Davíðsson, Adam Omarsson, Birgir Ívarsson, Egill Úlfarsson, Ívar Andri Hannesson, Oddur Þór Unnsteinsson, Stefán Orri Davíðsson, Sindri Snær Kristófersson, Heimir Páll Ragnarsson, Róbert Lu, Óttar Örn Bergmann, Sævar Breki Snorrason, Aron Kristinn Jónsson og Baltasar Máni Wedholm.