31.12.2009 kl. 15:28
Áramótapistill formanns.
Árið 2009 hefur verið sérstaklega gott fyrir skákfélagið Goðann. Ótrúleg fjölgun félagsmanna og gott gengi í Íslandsmóti skákfélaga, sem nú er hálfnað, stendur þar uppúr. A sveit Goðans á nú í fyrsta skipti raunhæfa möguleika á því, að vinna sig upp í 3. deild á næsta ári.
Smári Sigurðsson og Rúnar Ísleifsson. Tveir af lykilmönnum Goðans.
Alls hafa gengið 7 skákmenn til liðs við félagið á árinu og stendur koma þeirra Erlings Þorsteinssonar, Sindra Guðjónssonar, Sigurjóns Benediktssonar og Jóns Þorvaldssonar uppúr. Erlingur, Jón og Sindri koma til með að skipa 3 efstu borðin í A-sveit Goðans 5-6 mars nk. þegar seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga verður í Reykjavík.
Þess má til gamans geta að fjölgunin í félaginu hefur verið slík að fyrir tveimur árum var enginn, sem nú skipar A-sveitina, í félaginu, nema Jakob Sævar. Fjölgunin hefur líka skilað mönnum sem í dag skipa B-sveitina.
Annað sem vert er að minnast á er að í haust gátu 6 virkir skákmenn ekki verið með í Íslandsmóti Skákfélaga 2009-10, sem tóku þátt í íslandsmóti skákfélaga 2008-9. Ágætar líkur er því á að Goðinn tefli fram 3 skáksveitum í Íslandsmótið 2010-11.

„Þetta var nú ekki falleg skák !“
Sighvatur Karlsson og Sigurjón Benediktsson. Þessi mynd fór víða, ma. inn á mbl.is.
Skákmynd ársins ?
Félagsstarfið hefur gengið vel og félagið hefur haldið æfingar og skákmót samkv. áætlun.
Nýtt mót, haustmótið, var haldið í fyrsta skipti í haust og tóku 12 keppendur þátt í því. Þar voru tefldar 3 atskákir og 4 kappskákir á einni helgi og virðist það form henta mjög vel á helgarmóti.
Skákþing Goðans verður væntanlega haldið með sama sniði og haustmótið.

Tveir af eldri kynslóð Goðans. Heimir Bessason og Ármann Olgeirsson.
15. mín mótið var haldið í október og hraðskákmótið milli jóla og nýárs, samkv. venju.
Skákæfingar eru einnig samkv. venju á miðvikudagskvöldum til skiptis á Húsavík og í Þingeyjarsveit.

Hlynur Snær Viðarsson. Einn af yngri kynslóð Goðans.
Framundan hjá félaginu er keppni við SAUST á Egilsstöðum í janúar, Skákþing Goðans í febrúar. Íslandsmótið í mars og síðan Héraðsmótið og Skákþing Norðlendinga í apríl.
Skákþing Norðlendinga verður stærsta skákmót sem Goðinn hefur haldið, gangi allar áætlanir eftir. Líklegt er að 30-50 keppendur taki þátt í mótinu.
Nú þegar er skipulagning vel á veg kominn og þegar búið að semja um mótsstað og gistingu fyrir keppendur sem koma lengra að, á hagstæðum kjörum. Eftir miðjan janúar kemur svo í ljós hve há peningaverðlaun verða í boði fyrir sigurvegaranna á mótinu, en líkur standa til að þau verði í veglegri kantinum.
Hér má sjá allar upplýsingar um Skákþing Norðlendinga 2010
http://www.godinn.blog.is/blog/godinn/entry/983547/
Að lokum vil ég minna félagsmenn á að einhverjir eiga eftir að fá sérmerkta Goða-boli og síðan geta félagsmenn keypt sér fána með merki félagsins.
Stjórn skákfélagsins Goðans óskar félagsmönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir árið sem er að líða og vonast til þess að árið 2010 verði félaginu gjöfult.
Hermann Aðalsteinsson formaður.
Myndir: Hafþór Hreiðarsson. 640.is
