30.12.2010 kl. 17:15
Áramótapistill formanns.
Árið 2010 hefur verið sérstaklega gott fyrir skákfélagið Goðann. Mikil fjölgun félagsmanna á árinu stendur þar uppúr og ágætt gengi á íslandsmóti skákfélaga.
Goðinn sendi í fyrsta skipti þrjár skáksveitir til keppni á Íslandsmót skákfélaga, sem er afskaplega góður árangur hjá ungu félagi.
Eftir að liðum var fjölgað í 3. deild upp í 16, fluttist A sveit Goðans sjálfkrafa upp í þriðju deild og á raunhæfa möguleika á því, að vinna sig upp í 2. deild á næsta ári. B og C sveitirnar eru áfram í fjórðu deild og ólíklegt verður að teljast að þær geri einhverjar rósir þar.

Alls hafa gengið 12 skákmenn til liðs við Goðann á árinu og þeir eru, Ásgeir P Ásgeirsson, Björn Þorsteinsson, Einar Hjalti Jensson, Tómas Björnsson, Sveinn Arnarson, Páll Ágúst Jónsson, Ingi Fjalar Magnússon, Ragnar Fjalar Sævarsson, Helgi Egilsson, Andri Valur Ívarsson, Ingvar Björn Guðlaugsson og Viðar Njáll Hákonarson. Koma þessara nýju manna hefur styrkt Goðann mjög mikið og eigum við nú fjóra félagsmenn með meira en 2100 skákstig.

Stigahæsti félagsmaðurinn er Ásgeir P Ásbjörnsson með slétt 2300 stig. Vakti það talsverða athygli þegar Ásgeir settist að tafl á fyrsta borði í A-sveit Goðans en hann hafði ekki teflt kappskák síðan 1987. Ásgeir átti frábæra endurkomu að skákborðinu því hann fékk 3,5 vinninga af 4 mögulegum í fyrri hluta íslandsmótsins og vann ma. Davíð Kjartansson.
Erlingur Þorsteinsson og Einar Garðar Hjaltason yfirgáfu félagið á árinu og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir veruna hjá okkur.
Félagsstarfið hefur gengið vel og félagið hefur haldið æfingar og skákmót samkv. áætlun. Goðinn hélt Skákþing Norðlendinga á Húsavík í apríl og heppnaðist það vel, en það olli talsverðum vonbrigðum hve fáir keppendur af norðurlandi, utan okkar félagssvæðis, voru með og sérstaklega vantaði keppendur frá Akureyri.
Á aðalfundinum í vor hætti Ármann Olgeirsson í stjórn og var Sighvatur Karlsson kjörinn í hans stað. Ég vil þakka Ármanni sérstakleg fyrir vel unnin störf fyrir félagið, en Ármann hefur verið í stjórn Goðans frá stofnun félagsins árið 2005. Við þetta tækifæri var Ármann gerður að fyrsta heiðursfélaga Goðans.
Starfsemin í sumar var meiri en áður og hélt félagið útiskákmót í Dimmuborgum og stóð fyrir vel sóttu fjöltefli á Mærudögum á Húsavík sem heppnaðist afar vel.

Venjuleg starfsemi hófst í byrjun september með félagsfundi. Félagið hefur áfram aðstöðu hjá Stéttarfélaginu Framsýn á Húsavík í mjög flottri og nýuppgerðir aðstöðu og efast ég um að nokkurt annað skákfélag í landinu hafi flottari eða betri aðstöðu en við.
Nýtt mót, Framsýnarmótið, var haldið í fyrsta skipti í haust og tóku 14 keppendur þátt í því. Þar voru tefldar 3 atskákir og 3 kappskákir. Jón, Tómas og Björn komu sérstaklega að sunnan til þess að taka þátt í því. Mótið var kostað af Framsýn-stéttarfélagi sem gaf verðlaun á mótinu.
Íslandsmót skákfélaga var á sínum stað og nýliðið hraðskákmót Goðans var fjölmennasta innanfélagsmót sem Goðinn hefur haldið til þessa.

Fjáröflunarnefnd var skipuð á árinu, enda reksturinn orðinn talsverður hjá félaginu. Í Fjáröflunarnefnd sitja, Hermann, Sighvatur og Jón Þorvaldsson sem er formaður hennar. Nefndinni var nokkuð vel ágengt á árinu og tókst að safna styrkjum hjá hinum ýmsu fyrirtækjum á Húsavík og á ólíklegustu stöðum á höfðaborgarsvæðinu. Okkar helstu styrktaraðilar eru stéttarfélagið Framsýn í Þingeyjarsýslu og fóðurvörufyrirtækið Lífland í Reykjavík. Auk þeirra styrktu Fulltingi, GPG-fiskverkun og peningastofnanir í héraði félagið. Í haust tókst formanni svo að fá styrk frá Þingeyjarsveit vegna skákkennslu með Skype og samkomulag mun nást við Norðurþing snemma á næsta ári vegna skákkennslu á Húsavík á næstu árum.

Koma Jóns þorvaldssonar í Goðann seint á árinu 2009 hefur virkað eins og vítamín sprauta fyrir félagið og hefur hann laðað aðra sterka skákmenn til liðs við félagið. Eins hafa félagsmenn notið gestrisni hans í tvígang í aðdraganda Íslandsmóts skákfélaga á árinu. Jón hefur í tvígang skipulagt stúderingakvöld heima hjá sér þar sem félagsmenn sem búa sunnan heiða hafa komið saman og var það svo sent út til okkar fyrir norðan í gegnum Skype. Áframhald verður á þessum stúderingakvöldum á nýju ári.
Framundan hjá félaginu er heimsókn til Þórshafnar í janúar, Skákþing Goðans í febrúar. Íslandsmótið í mars og síðan Héraðsmótið og Skákþing Norðlendinga á Siglufirði í apríl. Einnig er ætlunin að halda sérstakt páskaskákmót um páskanna.
Um þessi áramót eru 51 skráðir félagar í Goðann sem gerið félagið að áttunda stærsta skákfélagi landsins. Goðinn er því ekki lengur lítið landsbyggðar skákfélag.
Stjórn skákfélagsins Goðans óskar félagsmönnum gleðilegs árs og þakkar fyrir árið sem er að líða og vonast til þess að árið 2011 verði félaginu gjöfult.
Hermann Aðalsteinsson formaður.
