Hrafn Jökulsson skrifar:
- Íslenska A-landsliðið lá gegn Armenum
- Gullaldarliðið tapaði fyrir Hollendingum
- Guðlaug hetja okkar gegn Tyrkjum
Íslenska A-landsliðið í skák steinlá fyrir Armenum, einni sterkustu skákþjóð heims, í fyrstu umferð Evrópumóts landsliða sem hófst í Laugardalshöll í dag. Armenar, sem tefla fram Levon Aronian á efsta borði, gáfu Íslendingum engin grið og þrátt fyrir góð færi Héðins Steingrímssonar tókst okkar mönnum ekki að komast á blað gegn hinum firnasterku Armenum.
Aðeins Armenar og Georgíumenn unnu viðureignir sínar með mesta mun. Georgíumenn, sem ofurstórmeistarann Baadur Jobava leiða, sigruðu Skota 4-0.
Gullaldarlið Íslendinga tapaði fyrir öflugri sveit Hollendinga með hálfum vinningi gegn þremur og hálfum, þar sem Margeir Pétursson tryggði að Ísland kæmist á blað.
,,Þarna hefndum við Hollendingar fyrir tvö töp í fótbolta,” sagði kampakátur Loek van Wely eftir viðureignina við íslenska liðið, og vísaði að sjálfsögðu í glæsileg úrslit Íslendinga í knattspyrnu gegn Hollendingum.
Kvennalandsliðið tapaði 3-1 gegn Tyrkjum. Guðlaug Þorsteinsdóttir var hetja íslenska liðsins, lagði andstæðing sem var 250 skákstigum hærri.
Helstu úrslit í 1. umferð voru að Rússar, stigahæsta sveit mótsins, unnu Tyrki 3-1, Úkraína vann Rúmeníu 3-1, Evrópumeistarar Asera unnu Slóvena 3-1 og Frakkar unnu Svía 3-1.
Danir náðu góðum úrslitum og lögðu sterka sveit Tékka, 2,5-1,5. Þá vakti mikla athygli að Kosovo, sem nú keppir í fyrsta sinn, náði góðum úrslitum á móti Grikkjum, töpuðu með minnsta mun. Frændur vorir í Færeyjum, sem eiga þriðju stigalægstu sveit landsins, náðu ágætum úrslitum gegn Króötum, 1-3.
Í kvennaflokki bar hæst að úkraínsku systurnar Anna og Mariya Muzichuk komust ekki til landsins í tæka tíð og varð Úkraína að gefa eina skák á móti Englendingum, en hafði engu að síður sigur, 2,5-1,5. Önnur helstu úrslit í kvennaflokki urðu að Georgía, stigahæsta sveit mótsins, sigraði Tékka 3,5-0,5 og Rússar unnu Grikki 3-1.
Evrópumótið í skák er öflugasta og sterkasta skákmót ársins í heiminum, og stærsti skákviðburður sem fram hefur farið á Íslandi síðan 1972.
Skáksamband Íslands stendur að viðburðinum í samvinnu við Skáksamband Evrópu, með stuðningi ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar og fjölmargra fyrirtækja, félaga og einstaklinga.
Við setningarathöfnina í dag fluttu Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Zurab Azmaiparashivili forseti Skáksambands Evrópu ávörp. Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur kom fram við setningu mótsins.
Önnur umferð Evrópumóts landsliða í skák fer fram laugardaginn 14. nóvember og hefst kl. 15. Allar skákir eru sendar beint út á netinu og hægt er að fylgjast með á heimasíðu mótsins, http://etcc2015.com/#.