Í gærkvöld fóru fram tvær toppviðureignir í Hraðskákkeppni taflfélaga.

2014-08-18 22.52.29
Bolar og B-liði Hugins – Mikil vinátta er milli keppenda og skemmtileg stemning sveif yfir borðum þrátt fyrir hve mikið var í húfi.

Annars vegar mættust lið Taflfélags Bolungarvíkur og b-sveit Hugins í hörkuspennandi slag.

Flestum á óvart höfðu Huginsmenn lengst af forystu, þótt stigalægri væru, en Bolvíkingar náðu að saxa á forskotið í lokin og jöfnuðu metin í síðustu umferð: 36-36.

Grípa þurfti til bráðabana og þar tryggði TB sér sigurinn með minnsta mun: 3,5 – 2,5. Flesta vinninga Bolvíkinga fengu Bragi Þorfinnsson, Jón Viktor Gunnarsson og Dagur Arngrímsson en hlutskarpastir Huginsmanna voru Kristján Eðvarðsson, Andri Áss Grétarsson og Hlíðar Þór Hreinsson.

2014-08-18 20.22.55
TV og A- liði Hugins – Myndin er tekin við upphaf viðureignarinnar meðan menn voru enn 100% einbeittir og sprækir.

Í hinni viðureign kvöldsins bar a-sveit Hugins sigurorð af Taflfélagi Vestmannaeyja með allmiklum mun. Þess ber að geta að í sveit Eyjamanna vantaði báða stórmeistarana, þá Helga Ólafsson og Henrik Danielsen, og munar um minna. Huginn náði hins vegar að tefla fram sínu sterkasta liði og var styrkleikamunurinn á liðunum, mældur í skákstigum, um 200 elóstig að meðaltali. Flesta vinninga Huginsmanna hlaut Hjövar Steinn Grétarsson, fullt hús, en Helgi Áss Grétarsson, Þröstur Þórhallsson og Magnús Örn Úlfarsson komu þar skammt á eftir.

Hlutskarpastir Eyjamanna voru Ingvar Þór Jóhannesson, Sigurbjörn Björnsson og Björn Ívar Karlsson.

Hraðskákkvöld þetta fór hið besta fram. Vel fór á með keppendum og stutt var í gamanmálin þó svo að hart væri tekist á og jafnvel grimmilega á köflum.

Áhorfendur virtust skemmta sér vel enda spennan magnþrungin á köflum. Höfðu nokkrir á orði að tilþrif teflenda og baráttuvilji gæfu góð fyrirheit um komandi leiktíð á hvítum reitum og svörtum.

Kristjáni Eðvarðssyni og öðrum starfsmönnum Sensu er þakkað kærlega fyrir afnot að hinum vistlegu húsakynnum félagsins.