Davíð Kjartansson hefur sigrað oftast allra - fimm sinnum!
Davíð Kjartansson hefur sigrað oftast allra – fimm sinnum!

Fidemeistarinn Davíð Kjartansson (Boyzone) sigraði á 19. Íslandsmótinu í netskák sem fram fór í kvöld, en hann hlaut 10 vinninga í 11 umferðum; hann gerði jafntefli við Sigurbjörn J. Björnsson (czentovic) og hinn eitilharða Jón Kristinsson (Uggi) og vann allar hinar níu. Davíð er þar með orðinn sigursælasti netskákmaður landsins, enda hefur hann nú unnið titilinn fimm sinnum, eða oftast allra!

Alþjóðameistarinn og TR-ingurinn Arnar Gunnarsson (AphexTwin) varð í öðru sæti með 9.5 vinninga og Jón Kristinsson (Uggi) í þriðja með 8 vinninga. Jón lét ekki staðar numið þar, því hann varð efstur í flokki betri skákmanna, 60 ára og eldri.

Stórmeistarinn og Huginsmaðurinn Lenka Ptácníková (velryba) landaði afar öruggum sigri í kvennaflokki, fékk 7.5 vinninga, sem dugði henni reyndar í 4.-7. sæti í mótinu sjálfu. Huginsmaðurinn Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (jolahjol) tók 2. sætið með glæsibrag.

Víkingurinn Gunnar Freyr Rúnarsson (Thule2) varð efstur í undir 2100 stiga flokki og norðlendingurinn grjótsterki úr SA, Jón Kristinn Þorgeirsson (jokkosoppo) varð í öðru sæti. Reyndar fengu þeir félagar jafn marga vinninga, en vinningar andstæðinga Gunnars reyndust fleiri en Jóns eftir að Ríkisendurskoðun hafði yfirfarið málið.

Huginsmaðurinn Kristófer Ómarsson (vitus) sigraði í flokki skákmanna með minna en 1800 skákstig og ungstirnið úr Faxafeninu, Björn Hólm Birkisson (broskall) varð í öðru sæti.

Öllum ætti nú að vera ljóst að Jón Kristinn Þorgeirsson (jokkosoppo) stóð sig með mikilli prýði; hann endaði í 4.-7. sæti í heildina og 2. sæti í u/2100 stiga flokki en lét það ekki duga því hann sigraði einnig í unglingaflokki (15 ára og yngri). Björn Hólm Birkisson (broskall) náði 2. sætinu, hársbreidd á undan hinum grjótharða Símoni Þórhallssyni (Zimzen) úr SA, sem var með jafn marga vinninga en lakari andstæðinga.

Heldur var fámennt í flokki stigalausra, en í honum fannst aðeins einn keppandi. Það hafði þó lítil áhrif á meistarann sem í honum var, en Hannes Sigurgeirsson (antipeon) sigraði með miklu öryggi og fékk 5.5 vinninga sem er stórfínt.

Huginn óskar sigurvegurunum til hamingju og þakkar öllum fyrir þátttökuna og hlakkar til að halda 20. Íslandsmótið í netskák árið 2015!

Sigurvegarar:

1. sæti, kr. 10.000 – FM Davíð Kjartansson (Boyzone)
2. sæti, kr. 6.000 – IM Arnar Gunnarsson (AphexTwin)
3. sæti, kr. 4.000 – Jón Kristinsson (Uggi)

Aukaverðlaun:

Undir 2100 skákstigum (miðað við nýjustu íslensku skákstig):

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Gunnar Freyr Rúnarsson (Thule2)
2. sæti, þrír frímánuðir á ICC – Jón Kristinn Þorgeirsson (jokkosoppo)

Undir 1800 skákstigum (miðað við nýjustu íslensku skákstig):

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Kristófer Ómarsson (vitus)
2. sæti, þrír frímánuðir á ICC – Björn Hólm Birkisson (broskall)

Stigalausir:

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Hannes Sigurgeirsson (antipeon)

Unglingaverðlaun (15 ára og yngri):

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Jón Kristinn Þorgeirsson (jokkosoppo)
2. sæti, þrír frímánuðir á ICC – Björn Hólm Birkisson (broskall)

Kvennaverðlaun:

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Lenka Ptácníková (velryba)
2. sæti, þrír frímánuðir á ICC – Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (jolahjol)

Eldri skákmenn (60 ára og eldri):

1. sæti, fimm frímánuðir á ICC – Jón Kristinsson (Uggi)
2. sæti, þrír frímánuðir á ICC – Gunnar Magnússon (gilfer)