Einar Hjalti Jensson (2394) og Davíð Kjartansson (2366) eru efstir með fullt hús að lokinni þriðju umferð Meistaramóts Hugins sem fram fór í gærkvöldi. Þeir lögðu tvíburana, Björn Hólm (1907) og Bárð Örn (1854) að velli í hörkuskákum þar sem ekkert var gefið eftir. Það átti reyndar við flest öll átta efstu borðin þar sem viðureignir stóðu langt fram eftir kvöldi. Það sama á við hin tvö kvöldin þau stóðu öll lengi og fyrsta kvöldið meira að segja töluvert lengur en 2. umferðin. Loftur Baldvinsson (1988), Snorri Þór Sigurðsson (1956) og Jón Trausti Harðarson (2117) eru svo skammt á eftir efstu mönnum í 3.-5. sæti með 2½ vinning.
Það var jafn lítið um óvænt úrslit í 3. umferð og það var mikið um óvænt úrslit 1. og 2. umferð. Það er reyndar oft þannig að byrjun móta er tími óvæntra úrslita. Þá er stigamunurinn mestur milli manna, þeir stigalægri ákafir í að vinna sér inn stig og þeir stigahærri þurfa að passa sig annars geta þeir farið flatt.
Nú verður hlé á mótinu þar til á mánudag þannig að keppendur hafa góðan tíma til undirbúnings. Þá mætast meðal annars: Einar Hjalti – Davíð, Jón Trausti – Loftur og Snorri Þór – Björn Hólm.
