- Stærsti skákviðburður á Íslandi síðan 1972
- Skáksveitir frá 35 löndum
- Næstum 500 erlendir gestir
- Magnus Carlsen heimsmeistari og Mariya Muzychuk heimsmeistari kvenna meðal keppenda
- Friðrik Ólafsson í Gullaldarliði Íslands
Evrópumót landsliða í skák fer fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík, 13.-22. nóvember. Evrópumótið er stærsti skákviðburður sem fram hefur farið á Íslandi síðan Fischer og Spassky mættust í heimsmeistaraeinvígi árið 1972.
Magnus Carlsen heimsmeistari leiðir lið Norðmanna, og af öðrum stórstjörnum má nefna Anish Giri, Levon Aronian, Alexander Grischuk, Vassily Ivanchuk, Peter Svidler, Alexei Shirov, Nigel Short, Ivan Sokolov og Luke McShane.
Gullaldarlið Íslands
Íslendingar mega tefla fram tveimur liðum í opnum flokki og er Friðrik Ólafsson, fyrsti stórmeistari Íslands, í ,,Gullaldarliðinu” ásamt Helga Ólafssyni, Jóhanni Hjartarsyni, Jóni L. Árnasyni og Margeiri Péturssyni.
Hin íslenska sveitin er skipuð Hannesi Hlífari Stefánssyni, Héðni Steingrímssyni, Hjörvari Steini Grétarssyni, Henrik Danielsen og Guðmundi Kjartanssyni.
Alls senda 35 lönd lið til keppni í opnum flokki og 30 í kvennaflokki, og er helmingur af tuttugu stigahæstu skákmönnum heims skráður til leiks. Af 178 keppendum í opnum flokki eru 133 stórmeistarar, og í kvennaflokki eru 13 stórmeistarar meðal 146 keppenda.
Rússar með stigahæstu sveitina
Á Evrópumótinu eru tefldar 9 umferðir og er hvert lið skipað fjórum liðsmönnum, auk varamanns. Rússar mæta með sterkustu sveitina á pappírnum, en meðalstig liðsmanna eru 2743. Næstir koma grannar þeirra í Úkraínu (2725) og Aserbaidsjan (2707).
Íslenska sveitin er í 24. sæti af 36 á stigalistanum með 2557 meðalstig og Gullaldarliðið hefur 2525.
Evrópumót landsliða var fyrst haldið í Vínarborg árið 1957 og fer nú fram í 20. skipti. Sovétmenn urðu Evrópumeistarar 9 skipti í röð og Rússar hafa unnið titilinn þrisvar. Rússnesku stórstjörnunum hefur þó mistekist að sigra á EM á síðustu þremur mótum. Aserar eru ríkjandi Evrópumeistarar, sigruðu í Varsjá 2013.
Heimsmeistari kvenna í sveit Úkraínu
Í kvennaflokki eru sveitir Georgíu, Rússland og Úkraínu langstigahæstar. Úkraína sigraði á Evrópumótinu fyrir 2 árum, en áður höfðu rússnesku stúlkurnar sigrað þrjú ár í röð. Heimsmeistari kvenna, Mariya Muzychuk, teflir með úkraínska liðinu, og munu langflestar af sterkustu skákmönnum heims leika listir sínar í Laugardalshöllinni.
Íslenska kvennaliðið er númer 29 af 30 í styrkleikaröð EM kvenna. Lenka Ptacnikova fer fyrir íslensku sveitinni sem jafnframt er skipuð Guðlaugu Þorsteinsdóttur, Elsu Maríu Kristínardóttur, Hrund Hauksdóttur og Veroniku Steinunni Magnúsdóttur.
Frábær aðstaða í Laugardalshöll
Skáksamband Íslands stendur að Evópumótinu, í samvinnu við Skáksamband Evrópu, með stuðningi ríkisstjórnar Íslands, Reykjavíkurborgar, Icelandair, Íslandsstofu, Actavis, Valitor, Brim, Landsbankans, Suzuki-bíla, Guðmundar Arasonar hf., GAMMA, Icelandic Glacial, Ölgerðarinnar, Heimilstækja, Tölvulistans, Marels og fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga.
Fyrsta umferð Evrópumótsins hefst föstudaginn 13. nóvember klukkan 15. Mjög góð aðstaða verður fyrir áhorfendur í Laugardalshöll, auk þess sem allar skákirnar verða sendar út á netinu.
Frekari upplýsingar um mótið, dagskrá og úrslit, er hægt að nálgast á heimasíðu mótsins: etcc2015.com.