Önnur umferð í Meistaramóti Hugins sem lauk í kvöld var jafn róleg og tíðindalítil og sú fyrsta var viðburðarríka. Sá sem var stigahærri vann að jafnaði þann stiglægri nema í skák þeirra Óskars Víkings Davíðssonar (1666) og Stephan Briem (1569) þar sem sæst var á skiptan hlut. Miðað við reynslu mína af viðureign við Stephn í fyrstu umferð er spurning hvort telja eigi það óvænt úrslit. Þótt úrslitin væru eftir bókinni þá var mikil barátta á öllum borðum og engin stutt viðureign nema þar sem símagambíturinn réð úrslitum. Þeir stigalægri velgdu þeim stigahærri undir uggum og gáfum ekki sinn hlut fyrr en í fulla hnefana. Mér sýndist við lauslega skoðun á viðureignum að Mikael Jóhann þurfa að sækja sigurinn djúpt á móti Þorsteini Magnússyni og eins komst ég ekki hjá því að fylgjast með skákinni á næsta borði þar sem Jón Trausti kreisti vinning út úr skákinni við Heimi Pál en þeir voru síðastir til að ljúka umferðinni.
Að lokinni annarri umferð eru fimm skákmenn efstir og jafnir með 2 vinninga. Þriðja umferð fer fram á mánudagskvöldið 5. september og hefst kl. 19.30. Eftir þá umferð hljóta línur að fara að skýrast nokkuð.
Staðan eftir 2 umferðir í chess-results: