20.7.2012 kl. 20:30
Gawain Jones stafnbúi Goðans!
Í fornum ritum íslenskum er stafnbúa víða getið og þótti sæmdarheiti. Stafnbúar voru vígamenn er stóðu í stafni herskipa og var þeim falinn sá virðingarstarfi að aflífa sem flesta úr framvarðarsveit andstæðinganna. Hið rammíslenska skákfélag Goðinn hefur nú valið sér stafnbúa fyrir orrustur vetrarins. Sá er enskur og heitir Gawain Jones. Stafnbúanum er að fornum sið treyst til að þjarma að andstæðingum sínum á 1. borði Goðans á Íslandsmóti skákfélaga.

Sue Maroroa Jones og Gawain Jones á Sólheimajökli.
Gawain (2655) er einn af öflugustu skákmönnum Englendinga um þessar mundir þó að hann sé aðeins 24 ára að aldri. Ferill hans hefur verið afar farsæll. Hann ávann sér fyrst lýðhylli þegar hann lagði alþjóðlegan skákmeistara að velli, aðeins níu vetra. Nafnbótina stórmeistari hlaut hann svo áratug síðar. Gawain hefur vegnað vel á alþjóðlegum mótum, deildi m.a. fyrsta sæti á London Classic Open 2010 og sigraði á Breska samveldismótinu 2011. Leiktíðina 2011-2012 tefldi hann fyrir hið ágæta skákfélag Máta í fyrstu deild Íslandsmótsins og hlaut 5 vinninga af sex mögulegum. Í kjölfarið tók hann þátt í Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu í Hörpu þar sem hann hafnaði í 2.- 8. sæti.
Gawain er maður víðförull og langförull eins og stafnbúa sæmir. Hann fæddist í Jórvíkurskíri en hefur búið á Ítalíu, Írlandi, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Hann er fjölhæfur íþróttamaður, leikur tennis, hleypur vasklega og er vel liðtækur glímumaður. Það verður Goðanum því ánægjuefni að efna til móts í íslenskri glímu, Gawain til heiðurs, þegar hann sækir Þingeyjarsýslurnar heim í haust og fróðlegt að sjá hvernig honum vegnar á þeim vettvangi. Einnig kemur til greina að Gawain tefli fjöltefli á vegum Goðans á Húsavík.
Í för með Gawain verður eiginkona hans, Sue Maroroa Jones. Sú mæta kona er nýsjálensk að uppruna og er ágæt skákona með 2035 elóstig. Sue mun án efa styrkja B-sveit Goðans með kunnáttu sinni og reynslu.
Goðinn býður Sue og Gawain hjartanlega velkomin í raðir félagsins og væntir mikils af atfylgi þessara góðu gesta.
