2.9.2011 kl. 16:19
Goðanum berst öflugur liðsauki.
Goðinn heldur áfram að efla lið sitt fyrir hina hörðu keppni í 2. deild á vetri komanda.
Meðal svæsnustu keppinauta Goðans í þeim slag er Víkingasveitin sem státar ekki aðeins
af snjöllum skákmönnum heldur eru flestir þeirra líka kraftlyftingamenn, afrenndir að afli.
Nægir þar að nefna vöðvatröllin knáu, Gunnar Frey Rúarsson og Magnús Örn Úlfarsson.
Hér hefur því hallað verulega á lið Goðans, en nú eru bjartari tímar framundan því að einn kunnasti
líkamsræktarfrömuður landsins og margfaldur Íslandsmeistari, Arnar Grant, hefur gengið til liðs við Goðann.
Arnar Grant kominn í keppnistreyju Goðans.
Arnar, sem er Norðlendingur að uppruna, tefldi mikið á yngri árum en hefur nú ákveðið að hefja keppni á ný
undir merkjum Goðans. Jafnframt mun hann verða félögum sínum til ráðuneytis um holla lífshætti
og uppbyggingu líkamlegs atgervis enda ekki vanþörf á.
Arnar kveðst lengi hafa stefnt að endurkomu í skákina og gefur henni þessa einkunn:
„Að mínu áliti er skákíþróttin besta vaxtarækt fyrir hugann sem völ er á og ég er mjög ánægður með að
vera kominn í þennan vaska hóp.“
Þess má geta að Goðinn mun skora á Víkingaklúbbinn í keppni í sjómanni í náinni framtíð,
en þó fyrr en liðsmenn Goðans eru orðnir „helmassaðir“ eins og það heitir á máli sérfræðinga.
