Goðinn-Mátar og Velferðarsjóður Þingeyinga taka höndum saman og efna til fjársöfnunar á Íslenska skákdeginu 26. janúar

Í tilefni af Íslenska skákdeginum 26. janúar nk. mun Goðinn-Mátar og Velferðarsjóður Þingeyinga taka höndum saman og safna peningum fyrir sjóðinn.

Félagsmerki Goðinn Mátar

 
 
Söfnunin fer þannig fram að félagsmenn Goðans-Máta munu vera í anddyri Kaupfélagshússins á Húsavík, framan við matvörubúðina Kaskó, með skákborð og skákklukku.
Þar geta gestir og gangandi teflt við félagsmenn hraðskákir og greitt fyrir það að lágmarki 500 kr fyrir skákina. Eins geta þeir sem vilja greitt meira. Allt fé sem safnast með þessum hætti mun renna til velferðarsjóðsins.
Ef svo fer að einhver gestur vinni einhvern félagsmann verður viðkomandi umsvifalaust innlimaður í félagið og fær fyrsta árgjaldið að félaginu fellt niður.
 
Nú þegar hafa Heimilistæki heitið á Kristinn Vilhjálmsson, hjá Víkurraf á Húsavík, 50.000 krónum ef hann teflir eina hraðskák við einhvern af félagsmönnum Goðans-Máta á Íslenska skákdeginum.