1.9.2012 kl. 10:50
Guðfríður Lilja gengur í Goðann!
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, alþingismaður og fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands, er gengin til liðs við Goðann. Félaginu er mikill akkur í atfylgi þessarar fjölhæfu afrekskonu enda er hún ein fremsta skákkona Íslands og hefur unnið skákíþróttinni mikið gagn.
Guðfríður Lilja vakti þegar á unga aldri athygli fyrir skákhæfileika sína. Kornung varð hún alþjóðlegur meistari og ellefu sinnum hefur hún hlotið sæmdarheitið Íslandsmeistari kvenna í skák. Guðfríður Lilja braut blað í skáksögu Íslands þegar hún var kjörin forseti Skáksambands Íslands árið 2004, fyrst kvenna, og hún varð einnig fyrst kvenna til að gegna formennsku í Skáksambandi Norðurlanda. Guðfríður Lilja hefur unnið ötullega að því að efla skákiðkun á Íslandi og endurvakti m.a. kvennalandslið Íslands í skák árið 2000. Hún er með BA-gráðu í sagnfræði frá Harvard og meistaragráðu í heimspeki frá Cambridge í Englandi.
Hermann Aðalsteinsson, formaður Goðans: „Okkur er ljúft að bjóða skákdrottinguna Guðfríði Lilju velkomna í okkar raðir. Hið ötula starf hennar við útbreiðslu og eflingu skákíþróttarinnar er einstakt og við vonumst til þess að geta sótt til hennar góð ráð og innblástur á því sviði. Fyrst og fremst vonum við þó að Guðfríður Lilja eigi sem flestar ánægustundir við taflborðið og að hún njóti þess sem Goðinn hefur upp á að bjóða.“
Guðfríður Lilja: „Ég kveð Taflfélagið Helli með söknuði og þakklæti. Það er frábært félag. Nú er hins vegar komið að nýjum kaflaskilum í mínum skákferli og ég lít á inngöngu mína í Goðann sem upphafið að einhverju nýju og fersku. Goðinn hefur vakið athygli mína fyrir skemmtilegan liðsanda og kraftmikið félagsstarf. Hér fæ ég tækifæri til að rifja upp mannganginn í góðra vina hópi og hver veit nema þetta verði vel heppnuð innkoma í seinni helming míns skákferils. Skákin er falleg, skemmtileg og skapandi og ég á ekki von á öðru en að hún verði mér dyggur félagi út lífið. Svo er það auðvitað borðleggjandi að hin klassíska skák er margfalt meira gefandi en refskák stjórnmálanna!“