Stórmeistarinn sterki, Hjörvar Steinn Grétarsson, er genginn til liðs við skákfélagið Hugin. Segja má að þar með snúi Hjörvar aftur á heimaslóðir, því að hann var félagi í Helli, einum af forverum Hugins, þar til hann setti upp Víkingahjálminn eina leiktíð.
Frami Hjörvars á skáksviðinu hefur verið skjótur og hann hefur áorkað miklu þrátt fyrir ungan aldur. Meðal helstu afreka hans má nefna margfaldan Íslandsmeistartitil u-20 ára. Þá sætti það tíðindum þegar Hjörvar keppti í landsliðsflokki Íslandsmótsins aðeins 14 ára að aldri, yngstur íslenskra skákmanna til að takast á við þá erfiðu áskorun. Jafnframt var hann næst yngstur allra til að tefla í fylkingarbrjósti fyrir Íslands hönd í fjölþjóðlegri keppni landsliða, en hann tefldi nokkrar skákir á 1. borði í Evrópukeppni landsliða árið 2011. Hjörvar var útnefndur stórmeistari í skák í lok síðast árs.
Hermann Aðalsteinsson, formaður Hugins:
„Við fögnum inngöngu Hjörvars í okkar raðir og hlökkum til að njóta atfylgis hans, bæði sem öflugs skákmanns og ekki síður sem góðs og skemmtilegs félaga. Ljóst er að með komu Hjörvars er sterkri stoð rennt undir framtíð Hugins meðal fremstu skákfélaga á landinu.“
Stjórn og liðsmenn Hugins bjóða Hjörvar Stein Grétarsson velkominn í félagið.