Unglingasveit TR og Bolvíkingar áttust við í 8 liða úrslitum hraðskákkeppni taflfélaga í kvöld. TR-ingar sýndu strax að þeir eru í mun betri æfingu og sneggri á klukkunni. Auk þess sem Bolvíkingar voru ekki alveg með nýjustu hraðskákreglur og hreinu og köstuðu frá sér vinningum með því að drepa kóng og vekja upp drottningu á rangan hátt. TR vann 4 af fyrstu 6 viðureignunum og höfðu öruggt forskot í hálfleik 21-15.
Bolvíkingar gerðu þá skiptingu þegar Halldór Grétar kom inn fyrir Gísla Gunnlaugs. Halldór lenti í vinnu útkalli snemma dags og kom beint úr því í seinni umferðina. Þessi skipting reyndist afdrifarík því strax í fyrstu umferð seinni hálfleiks unnu Bolvíkingar 5-1 sigur. Keppnin var því orðin spennandi en í næstu 4 umferðum urðu 3 jafntefli og 1 sigur með minnsta mun. Fyrir síðustu umferð var TR með eins vinnings forskot. Eftir mikla baráttu náðu Bolvíkingar að vinna loka umferðina með minnsta mun og keppnin endaði því 36-36.
Reglur keppninnar kveða á um að þá sé tefldur bráðabani og höfðu Bolvíkingar sigur 3,5-2,5. Þetta gat því ekki orðið mjórra á munum.
Jóhann Hjartarson dró bolvíska vagninn og Guðni Stefán var mjög öflugur. Halldór Grétar kom svo sterkur inn í seinni hlutann. Við hinir kroppuðum nokkra vinninga en ekkert meira en það. Höfum oft teflt mun betur en í kvöld en tökum ekkert af öflugum andstæðingum.
Hjá unglingunum dreifðust vinningarnir betur og ljóst er að TR á marga sterka og efnilega unglinga. Það sýndu þeir svo sannarlega í kvöld og eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna. Framtíðin er björt hjá hinu öfluga og virka Taflfélagi Reykjavíkur.
Guðmundur M. Daðason
Frá Taflfélagi Reykjavíkur:
TB sigruðu TRuxva í spennandi viðureign!
Unglingasveit TR tapaði með allra minnsta mun í ótrúlega spennandi vipureign við TB í hraðskákkeppni taflfélaga.
TRuxva vantaði Hilmi og Bolvíkinga vantaði ýmsa sterka skákmenn en úr varð mjög jöfn keppni. Vignir var öflugur og landaði 8 vinningum af 12, Bárður 7 af 12, Björn og Gauti 6 af 12, Aron 7 af 11 og Veronika 2 af 11. Varamaðurinn Róbert Luu tapaði sínum tveimur.
TR-ingar voru yfir 21-15 í fyrri hálfleik en töpuðu illa 5-1 í fyrstu umferð seinni hálfleiks. Eftir það enduðu þrjár viðureignir 3-3 og tvær 3 1/2 – 2 1/2 TR í vil. Sem þýddi bara eitt! Bráðabani! Það endaði 3 1/2 – 2 1/2 fyrir TB sem var mjög súrt fyrir TRuxvamenn eftir svona öflugan fyrrihálfleik!
Jóhann Hjartarson var bestur hjá TB. Hann hafði nokkrum dögum áður fengið 8 vinninga af 8 þegar Gullaldarliðið og Ólympíuliðið mættust á menningarnótt. En í kvöld leifði sér eitt jafntefli á móti undirritaðum í stórskemmtilegri skák!
Þarna var að finna skemmtilega blöndu af klikkuðum gambítum, grjóthörðum pósa, tímahraki og ólöglegum leikjum. Unglingasveit TR mætir enn sterkari á næsta ári og stefnan sett á undanúrslit en við vorum grátlega nálægt því í ár!
Á morgun mætast TR og Huginn. Teflt verður í Feninu og keppnin hefst 20:00. Mætum og fylgjumst með flestum bestu skákmönnum landsins að tafli!
Gauti Páll Jónsson