Úrslitaviðureign Hraðskákkeppni taflfélaga fer fram á sunnudagskvöldið. Það eru Skákfélagið Huginn og Taflfélag Reykjavíkur sem mætast í úrslitum. Búast má við harðri og spennandi viðureign en flestir telja að einmitt þessi tvö félög berjist um Íslandsmeistaratitil skákfélaga.
Goðinn-Mátar, sem er hluti af skákfélaginu Huginn í dag, vann þessa keppni í fyrra eftir bráðabana við Víkingaklúbbinn. Árið 2012 tapaði Goðinn naumlega fyrir Víkingaklúbbnum, einnig eftir bráðabana. Búast má við að bæði félög stilli upp sínum sterkustu liðum á sunnudagskvöldið.
Viðureignin fer fram í húsnæði SÍ og hefst kl. 20. Gestir og gangandi að sjálfsögðu velkomnir en auk þess verða úrslitin uppfærð reglulega á Chess-Results.