Óskar Víkingur Davíðsson Íslandsmeistari barna 2015

Þrír ungir skákmenn frá skákfélaginu Huginn hnepptu titla á Íslandsmóti barna sem fram fór í gær. Þar ber fyrstan að nefna Óskar Víking Davíðsson, sem er fæddur 2005, en hann varð Íslandsmeistari barna eftir æsispennandi baráttu. Við lok mótsins voru þrír efstir og jafnir með 8 vinninga af 9, þeir Óskar Víkingur, Róbert Luu úr TR og Joshua Davíðsson úr taflfélaginu Fjölni. Þeir tefldu því til úrslita um titilinn, en glöggir menn muna ef til vill að Óskar Víkingur tefldi einmitt einvígi á síðasta ári um titilinn við Vigni Vatnar Stefánsson sem þá landaði titlinum.

Óskar Víkingur Davíðsson Íslandsmeistari barna 2015
Óskar Víkingur Davíðsson Íslandsmeistari barna 2015

Í úrslitum var tefld einföld umferð með sömu tímamörkum og í mótinu. Fóru leikar svo að Joshua sigraði Róbert í fyrstu umferð og Óskar sigraði Joshua í annarri umferð. Í þeirri þriðju áttust Óskar og Róbert við, og sömdu þeir jafntefli í lokaðri stöðu eftir fremur stutta viðureign. Það dugði Óskari til sigurs, sem hampaði því titlinum og er vel að honum kominn, en hann hefur verið sterkasti skákmaður þessa aldursflokks og á yfir 150 kappskákir að baki þrátt fyrir ungan aldur. Hann keppti m.a. fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramóti ungmenna 2013 með góðum árangri og stefnir nú á Norðurlandamótið í Færeyjum í febrúar næstkomandi.

Stefán Orri Davíðsson og Adam Omarsson ásamt Gunnari Björnssyni forzeta SÍ
Stefán Orri Davíðsson og Adam Omarsson ásamt Gunnari Björnssyni forzeta SÍ

Óskar hefur titil að verja á næsta ári, en hann hefur áfram keppnisrétt á Íslandsmóti barna í eitt ár í viðbót. Yngri bróðir Óskars Víkings, hann Stefán Orri Davíðsson blandaði sér einnig í toppbaráttuna og endaði í fjórða sæti með sjö vinninga. Hann fékk aldursflokkaverðlaun barna fæddra 2006 og varði þann titill sinn frá því í fyrra.  Hinn vaski Adam Omarsson lék sama leikinn og varði einnig meistaratitilinn í sínum aldursflokki en hann er fæddur árið 2007 og náði hann sex vinningum. Þess má einnig geta að Hugsinsmaðurinn Baltasar Máni Wedholm hafnaði í níunda sæti, einnig með sex vinninga, líkt og Brynjar Haraldsson. Birgir Logi Steinþórsson náði enn fremur góðum árangri með 5,5 vinninga.

Íslandsmót barna 2015 c
Brynjar Haraldsson og Óskar Víkingur

 

Eftirfarandi urðu árgangameistarar:

2004:  Sigurður Gunnar Jónsson, Taflfélagi Garðabæjar
2005:  Óskar Víkingur Davíðsson, Skákfélaginu Huginn (Íslandsmeistari barna)
2006:  Stefán Orri Davíðsson, Skákfélaginu Huginn
2007:  Adam Omarsson, Skákfélaginu Huginn
2008:  Guðbergur Davíð Ágústsson, Flóaskóla

Huginsmenn stóðu sig því í heild frábærlega á mótinu, en þrjú aldursflokkaverðlaun af fimm komu í hlut skákmanna sem keppa undir merki félagsins. Þessir skákkappar hafa allir verið iðnir við æfingar sem er að skila sér með góðum árangri og verður spennandi að fylgjast með afrekum þeirra við skákborðið í náinni framtíð.

Skákfélagið Huginn óskar þessum ungu skákmönnum, skákþjálfurum þeirra og öðrum aðstandendum innilega til hamingju með frábæran árangur. Mótið á chess-results

Íslandsmót barna 2015b
Baltasar Máni Wedholm og Joshua Davíðsson

 

Óskar Víkingur Davíðsson
Óskar Víkingur Davíðsson