Það var létt yfir mannskapnum sem tíndist inn í Björtuloft Breiðabliksstúku síðasta þriðjudagskvöld. Þar sem skákmenn koma saman – fyrir umferð – þar er gaman. Menn könkuðust á og sögðu sögur. Nokkrir minntust á skemmtilegt innslag Áskels Arnar á fésbókinni um orðatiltæki skákmanna. Þar kennir ýmissa frasa enda skákmenn orðheppnir í meira lagi. Það væri full ástæða til þess að taka saman orðatiltæki skákmanna og kanna uppruna þeirra og við hvaða tækifæri þau voru helst notuð. Mér dettur Jón Friðjónsson í hug í þessu sambandi. Hver er uppáhaldsskákfrasinn þinn? Hvaðan kemur: „Ja sko Spasskí“? Sá er þetta ritar, veit og hefur reynt á eigin skinni, að slíkir skákfrasar eru viðhafðir meðal annarra þjóða á öðrum tungum. Af sjálfu leiðir að einkunnarorð Fide eiga hér einnig við: Gens una sumus, skákmenn eru hvarvetna eins, við erum öll eins, „við erum öll af sama sauðahúsi“ sem er víst sérstök þýðing, kennd við Hermann Aðalsteinsson bónda og ritstjóra í Reykjadal.
Einn þeirra sem beittu fyrir sig skemmtilegu orðfæri, hvort heldur við skákborð eða utan þess, var Guðmundur Ágústsson skákbakari. Í bakaríinu við Vesturgötu og íbúð Guðmundar og Dóu var oft teflt. Þaðan ku orðatiltækið, „að taka einhvern í bakaríið“ m.a. komið. Þar var annáluð uppeldisstöð íslenskra skákmanna um árabil. Þá sögu þarf að segja. Mig grunar að Jóhann Hjartarson væri vel til slíks fallinn.
En snúum okkur aftur að Skákhátíð MótX . Þrátt fyrir glettni, gætti nokkurrar spennu. Loft var lævi blandið. Lokaumferðin fram undan og ljóst að teflt yrði til þrautar á efstu borðum. Fyrir umferð var þó vitað að skákin á efsta borði milli Guðmundar Kjartanssonar og Hjörvars Steins Grétarsonar hafði verið tefld. Annar keppandanna hafði beðið um að viðureign sinni yrði flýtt vegna utanfarar. Við því var orðið, og skákin fór fram bak við luktar dyr og einungis örfáir vissu um úrslit þeirrar skákar. Mótshaldarar brugðu á það ráð að láta skákina fara fram á efsta borði í fjarveru teflenda. Þannig voru sérstakir skákmenn, s.k. færarar, fengnir til þess að færa taflmennina á réttum tíma eins og skákin færi fram meðfram öðrum í rauntíma. Færarar voru misfærir en þó var Benedikt Jónasson þeirra færastur.
Fyrir umferð var Hjörvar efstur með fimm og hálfan vinning. Hafði einungis gefið hálfan punkt eftir vegna yfirsetu. Hann var því með fullt hús úr tefldum skákum! Næstur honum komu Guðmundur Kjartansson, Jón L. Árnason og Bragi Þorfinnsson. Guðmundur skyldi einmitt mæta Hjörvari í úrslitaskák. Bragi og Jón L. áttu einnig góða möguleika því með sigri, myndi annar þeirra deila efsta sæti með Hjörvari og Guðmundi ef sá síðarnefndi færi með sigur af hólmi.
Skák Guðmundar og Hjörvars
Guðmundur, sem hafði hvítt, var ekkert á því að gefa jafntefli án baráttu. Skák er keppni og um að gera að takst á af krafti. Hér mættust tveir meistarar og úr varð skemmtileg skák og sviptingasöm.
Skákreiknarnir loguðu á meðan úrslitaskák mótsins fór fram síðdegis síðastliðinn mánudag fyrir luktum dyrum í stúkunni við Kópavogsvöll. Undir yfirborði, að því er virtist venjulegrar stöðubaráttu, leyndust óvæntir sóknarmöguleikar. Þrisvar stungu skákreiknarnir upp á leik fyrir Gumma tengdum f5 reitnum og skálínunni a1-h8.
13.Rxg7!!
20.f5! Rd3 21.fxg6 Dxg6 22.Rf5!!
23.Rf5!.
Allt leikir sem eiga að færa hvíti unna stöðu. Sjálfsagt hefur Gummi ætlað að vinna örugglega vitandi að hann væri með stöðuglega yfirburði sem helguðust af miklum yfirráðum yfir a1-h8 skálínunni og veikri kóngstöðu hjá svörtum. En Hjörvar er öflugur í vörn ekki síður en sókn og eins og heimsmeistarinn sjálfur er Hjörvar sérlega öflugur í tímahrakinu. Þegar hér var komið sögu var að því er virtist allt í uppnámi og erfitt að henda reiður á stöðunni. En stríðsgæfan lagðist á sveif með svörtum.
34. – Rh3+! 35.Hxh3 He1+! 36.Kg2 Bxh3+
Hvíta drottningin fellur í valinn og hvítur gafst því upp.
Bragi Þorfinnsson og Jón L Árnason
Snemma í skákinni tókst Braga að hrinda atlögu svarts.
11.h3!, nú gengur ekki Rxf2 vegna Hf1.
Nýbakaði stórmeistarinn gekk á lagið og tefldi kröftuglega gegn sóknartilburðum svarts og hér kom svo náðarstungan:
19.Bxe7+! Kxe7 20.fxe5 Hg6 21.e6!
Jóhann Hjartarson og Dagur Ragnarsson
Dagur lék skringilegum biskupsleikjum í byrjuninni (Bf8-d6-e5xd4), en sjálfsagt er þessi leikaðferð þekkt. En það breytir ekki því að hvítur varð töluvert á undan í liðsskipan og náði heljartökum á d-línunni sem ásamt meira rými og kóngsóknarfærum leiddi til sigurs Jóhanns í 27 leikjum.
19.e5!
Þröstur Þórhallsson og Vignir Vatnar Stefánsson
Þröstur beindi byrjuninni í óvænta átt strax í öðrum leik. Vignir tefldi virkt á móti þessari leikaðferð, en í eftirfarandi stöðu náði Þröstur að reka fleyg í stöðu svarts sem færði honum yfirburði er dugðu til sigurs.
13.e6!
Af neðri borðum var það helst að frétta að skák Baldurs Kristinssonar og Magnúsar Pálma Örnólfssonar endaði með jafntefli eftir að sá fyrrnefndi hafði þurft að berjast í bökkum í riddaraendatafli. Báðir áttu gott mót. Hinn síungi Björgvin Víglundsson, sem kominn er á viskualdurinn dýrmæta, hefur sennilega aldrei verið í betra formi og átti í fullu tré við alþjóðlega meistarann Jón Viktor Gunnarsson sem nýlega setti nýtt Íslandsmet í stigum á chess.com (2733). Skák þeirra TR-félaga endaði með skiptum hlut.
Í B-flokki vann Gauti Páll Pál Andrason. Þeir Pálar enduðu jafnir og efstir, en Gauti hreppir efsta sætið á stigum. Hvortveggi vann sér inn þátttökurétt í A-flokki á Skákhátíð MótX 2020.
Sjá önnur úrslit í A flokki í chess-results.
Sjá önnur úrslit í B flokk í chess-results.
MótX 65+ meistarinn:
1.sæti: Björgvin Víglundsson 3,5 vinninga
MótX 50+ meistarinn:
1.sæti: GM Jón L Árnason 4,5 vinninga
2.sæti: GM Þröstur Þórhallsson 4,5 vinninga
3.sæti: GM Jóhann Hjartarson 4,5 vinninga
Skákmeistari Breiðabliks:
1. sæti: Magnús Pálmi Örnólfsson 4 vinninga
2. sæti: IM Dagur Arngrímsson 4 vinninga
3.sæti: Jóhann Ingvason 4 vinninga
Unglingameistari Breiðabliks:
1. sæti: Birkir Ísak Jóhannsson 5 vinninga
2. sæti: Stephan Briem 5 vinninga
3. sæti: Gunnar Erik Guðmundsson 5 vinninga
Skákstjóri var Vigfús Vigfússon.
Hraðskákmót MótX og verðlaunaafhending fer fram þriðjudagskvöldið 26. febrúar klukkan 19:30. Allir velkomnir!
• Heimasíða mótsins
• Beinar útsendingar
• Chess-Results