13.6.2012 kl. 12:55
Íslandsmeistarinn í skák gengur til liðs við Goðann !
Þröstur Þórhallsson, stórmeistari og nýbakaður Íslandsmeistari í skák, hefur gengið til liðs við skákfélagið Goðann. Vart þarf að orðlengja að félaginu er mikill akkur í liðsinni svo öflugs skákmeistara, ekki síst í ljósi þess að hin eitilharða A-sveit Goðans þreytir frumraun sína meðal bestu skáksveita landsins í 1. deild Íslandsmótsins á næstu leiktíð. Hermann Aðalsteinsson, formaður Goðans: „Okkur er í senn heiður og styrkur að komu Íslandsmeistarans í okkar raðir og hlökkum til að njóta snilldar hans, reynslu og þekkingar. Með inngöngu Þrastar í Goðann færumst við nær því markmiði að festa Goðann í sessi meðal fremstu skákfélaga á landinu.“

Þröstur Þórhallsson Íslandsmeistari í skák 2012.
Skákferill Þrastar er langur og afrekin mörg. Hann var útnefndur alþjóðlegur stórmeistari í skák árið 1996. Fyrsta áfanganum náði Þröstur í Gausdal í Noregi árið 1991 og annar áfanginn vannst í Oakham í Englandi árið 1994. Þriðji áfanginn kom strax í kjölfarið með sigri á Péturs Gauts mótinu í Gausdal árið 1995 en meðal þátttakenda þar voru kunnir kappar á borð við Margeir Pétursson og Emil Sutovsky sem Þröstur lagði eftirminnilega.
Þröstur hefur orðið Reykjavíkurmeisari í skák alls 6 sinnum og hefur einnig áunnið sér titilinn haustmeistari TR nokkrum sinnum. Hann er margfaldur Norðurlandameistari í skólaskák, bæði í keppni sveita og einstaklinga, en þann titil vann hann fyrstur Íslendinga er hann sigraði í flokki 11-12 ára árið 1982 í Asker í Noregi. Þröstur varð einnig þrásinnis Íslandsmeistari í skólaskák með sveitum Hvassaleitisskóla, Verslunarskóla Íslands og Menntaskólans í Hamrahlíð. Hann hefur teflt alls 9 sinnum fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í skák og stefnir að því að tefla í 10 skiptið fyrir hönd þjóðar sinnar á Ólympíuleikunum í Istanbul í haust, en Þröstur vann sér sæti í landsliðinu með sigrinum í Íslandsmótinu á dögunum.
Þröstur Þórhallsson: ´“Ég hef hrifist af uppgangi Goðans á undanförnum misserum, því skemmtilega félagsstarfi sem þar fer fram og góðum liðsanda. Einnig er mikil rækt lögð við skákfræðin undir forystu Einars Hjalta Jenssonar, sem aðstoðaði mig einmitt í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum í hópi vaskra skákmanna Goðans sem ég þekki marga hverja mjög vel allt frá unglingsárum“.
Stjórn og liðsmenn Goðans bjóða Þröst Þórhallsson velkominn í sínar raðir.
