Aðdragandi
Forveri Hugins, Skákfélagið GM Hellir, varð í öðru sæti á síðasta Íslandsmóti skákfélaga. Árangur liðsins var framar björtustu vonum og flestir liðsmenn skoruðu aðeins betur en stigin sögðu til um. Við vorum samt aldrei beint í raunhæfri baráttu um titilinn þrátt fyrir að staðan samkvæmt töflunni liti vel út eftir fyrri hlutann. Okkur langaði að gera betur í ár og vera a.m.k. í baráttunni um titilinn. Til þess fengum við snemma vors Stefán Kristjánsson til liðs við okkur. Þegar leið á sumarið bættust Hjörvar Steinn Grétarsson og Magnús Örn Úlfarsson við hópinn.
Það lá snemma ljóst fyrir að hvorki Gawain Jones né Robin van Kampen gætu teflt með okkur í fyrri hlutanum og fengum við Eric Hansen í þeirra stað. Á sama tíma vorum við að skipuleggja ferð á EM taflfélaga sem yrði útgjaldasöm. Við veltum því fyrir okkur að spara eins og einn útlending í Íslandsmóti skákfélaga til að minnka útgjöldin. Þegar dregið var um töfluröð fengum við flestar þær sveitir sem við töldum sterkari í fyrri hlutanum og jafnframt var B-liðið sem við höfum í 1. deild að fá þær sömu sveitir í seinni hlutanum. Við töldum því nauðsynlegt til að vera með í leiknum fyrir alvöru að vera með tvo útlendinga. Við höfðum bara einn og tíminn til stefnu var stuttur. Við leituðum okkur liðs víða og fengum mörg nei en héldum ró okkar og héldum leitinni áfram. Rúmum mánuði fyrir keppni rak Ivan Cheparinov á fjörur okkar alla leið frá Búlgaríu og var þá ljóst að liðið var fullmannað.
Við ákváðum fljótlega að sleppa útlendingunum í 1. umferð til að spara smá útgjöld. Töldum að það yrði samt ekki mikið mál að manna þessa fimmtudagsumferð en annað átti eftir að koma á daginn. Þegar leið að keppninni þótti líklegt að baráttan stæði milli okkar og TR, sem hafði bætt við sig Hannesi Hlífari, Jóni Viktori og Birni Þorfinnssyni. Okkur grunaði að TR gæti verið með tvo sterka Úkraínumenn og svo gæti Margeir Pétursson birst á svæðinu þegar mikið lægi við. Einnig töldum við mögulegt að Eyjamenn gætu blandað sér í baráttuna en það væri ekki eins líklegt þar sem lið þeirra var óbreytt frá tímabilinu á undan.
Félögin sem taka þátt í Íslandsmóti skákfélaga eru af ýmsu tagi. Sum reka margvíslega starfsemi en önnur einbeita sér að Íslandsmóti skákfélaga. Við sendum lið í Evrópukeppni taflfélaga sem kom heim tæpum hálfum mánuði fyrir Íslandsmótið. Í millitíðinni háðum við úrslitaviðureign við TR í hraðskákkeppni taflfélaga sem tapaðist. Þótt það sé ekki gaman að tapa taldi ég úrslitin þarfa áminningu fyrir Íslandsmótið og tryggja að við værum örugglega komnir niður á jörðina eftir Evrópukeppnina.
Í Íslandsmóti skákfélaga eru tefldar fimm umferðir í fyrri hlutanum. Töfluröðin var þannig að við vorum að mæta því liði sem við töldum vera okkar helsta keppinaut á sunnudagsmorgninum. Það er augljóst að tefla allar fimm umferðirnar tekur á og sérstaklega ef menn lenda í mörgum löngum skákum. Þetta hefur svo því meiri áhrif því eldri sem menn eru. Það var því augljós kostur að geta hvílt menn eitthvað fyrir lokabaráttuna og samkvæmt töfluröðinni var til þess ekki öðrum umferðum að dreifa en umferðinni á fimmtudagskvöldið og seinni umferðinni á laugardaginn og skiptir laugardagsumferðin mun meira máli í þessu sambandi.
Þegar leið að fimmtudagskvöldinu báðust fleiri undan því að tefla það kvöld og höfðu til þess góðar og gildar ástæður sem ekki verða tíundaðar hér. Við fórum því í liðsbón til félaga og sveitirnar voru mannaðar eins sterkar og kostur var miðað við að hluti liðsmanna var ennþá fyrir norðan á fimmtudagskvöldið. Ég hef tekið saman meðalstigamun milli A- og B-sveita Hugins í keppninni og þá kemur í ljós að hann er mestur á fimmtudagskvöldið, eða að meðaltali 412 stig. Á föstudagskvöldið snarminnkar hann og er 276 stig. Síðan fer hann vaxandi aftur og er 324 stig á laugardagmorguninn og 321 stig síðdegis á laugardaginn og 336 á sunnudagsmorgninum. Ég hygg að í sögulegu samhengi sé þessi stigamunur milli umferða ekki meiri en gengur og gerist milli A- og B-liða sama félags í þessari keppni. Eins getur verið munur milli styrkleika A-sveita sama félags milli umferða svo ekki sé minnst á mun milli fyrri og seinni hluta. Þessi munur getur haft veruleg áhrif á úrslit keppninnar ef hún er jöfn eins og margt annað og er bara hluti af keppninni.
Áður en keppnin hófst mátum við lið félagsins þannig að A-liðið væri í toppbaráttunni í 1. deild eins og fram hefur komið en væri kannski aðeins undir á líkum gagnvart TR. B-liðið töldum við að myndi sigla lygnan sjó í 1. deildinni en ekki mætti slaka á til að lenda ekki í botnbaráttunni. C-sveitarinnar, sem fékk óvænt sæti í 2. deild vegna brottfalls úr deildinni, var líklegra að biði erfið fallbarátta. Ég hafði gert mér vonir um að D-sveitin gæti verið í toppbaráttunni í 3. deildinni en þegar liðsskipan var ljós lá fyrir að slíkir draumar þyrftu að bíða seinni hlutans. E-sveit ætti að sigla lygnan sjó í 3. deild meðan F-sveitin væri í fallbaráttu. F-sveitin hékk uppi árið áður þótt við héldum fyrst eftir mótið að hún væri fallin en annað kom í ljós síðar vegna hagstæðra úrslita í öðrum viðureignum í fallbaráttunni. Í fjórðu deild vorum við með tvær unglingasveitir þar sem erfitt var að ráða í hver styrkleikinn væri miðað við aðrar sveitir, en árið áður voru þær báðar í neðri hlutanum.
1. deild
A-sveitin vann B-sveitina 7–1 á fimmtudagskvöldið. Viðureignin var hins vegar ekki í öllum tilvikum létt fyrir A-sveitina og þurftu sumir að hafa töluvert fyrir sigrinum þrátt fyrir stigamuninn. Það var Hilmir Freyr Heimisson sem náði í vinninginn fyrir B-sveitina með því að vinna Kristján Eðvarðsson, sem tapaði svo ekki skák eftir það og náði í 3½ v. fyrir B-sveitina. Á sama tíma vann TR 5–3 sigur á TV. Á föstudagskvöldið unnum við TB 6–2 og B-sveitin vann Skákfélag Íslands með sama mun og útlitið var nokkuð gott. Kannski of gott því á laugardagsmorguninn tapaði A-sveitin 4½–3½ fyrir TV. Á meðan vann B-sveitin góðan sigur á Fjölni með sama mun.
Eftir þessa umferð var ljóst að A-sveitin yrði að ná mjög hagstæðum úrslitum gegn Víkingaklúbbnum í seinni umferðinni á laugardaginn, þótt liðsuppstillingin væri ekki alveg eins og hún getur verið sterkust, og vinna TR á sunnudaginn til að vera með í titilbaráttunni. Okkur tókst að vinna Víkingaklúbbinn 7–1 án þriggja lykilmanna. Á sama tíma missti TR niður 1 vinning gegn Reykjanesbæ svo að bilið hélst óbreytt, sem átti eftir að skipta töluverðu máli. Eitthvað fór tapið í skapið á liðsmanni TR og fengu taflmennirnir og úlpa Héðins Steingrímssonar sem oft liggur á gólfinu fyrir fótum manna að kenna á þvi, auk skákskriftarblaðsins sem var vöðlað saman og hent upp í loft og hæfði mig svo í hausinn á niðurleiðinni. B-sveitin tapaði í umferðinni 2½–5½ gegn SA og kom það nokkuð niður á sveitinni að missa menn í A-sveitina í þessari umferð.
Þá var komið að sunnudagsumferðinni við TR. Ég hafði á tilfinningunni að þetta yrði góður dagur. Það er stundum betra að verða að sækja og mér sýndist einbeitingin vera í góðu lagi hjá mínum mönnum. Það kom líka á daginn að vinningar og jafntefli komu inn í reglubundnum hætti og aðeins ein skák tapaðist. Við unnum viðureignina 5–3 og vorum ekki langt frá stærri sigri, því að liðsmenn TR náðu í nokkrum tilvikum að verjast vel í erfiðum stöðum. Þetta var samt nóg til að við komumst aftur í efsta sæti, hálfum vinningi á undan TR og einum vinningi á undan TV.
B-sveitin gerði jafntefli við Reykjanesbæ í fimmtu umferð og er í 6. sæti eftir fyrri hlutann en á eftir erfiða andstæðinga í seinni hlutanum. Það er því allt útlit fyrir skemmtilega og spennandi baráttu í seinni hlutanum.
2. deild
Eins og fram hefur komið komst C-sveitin óvænt inn í 2. deild vegna forfalla. Hún féll niður árið á undan svo að búast mátti við erfiðleikum. Sveitin var nokkuð missterk eftir umferðum eftir því hvernig náðist að stilla upp. Árangurinn var samt ekki alltaf í samræmi við það hve sterkt var stillt upp. Sveitin halaði þó inn nokkuð af vinningum og gerði jafntefli í einni viðureign. Þótt sveitin sé næstneðst og staða hennar tvísýn hefur hún mætt þremur efstu sveitunum, svo að allt getur gerst. Ég hef reyndar séð það álíka svart í þessari deild og endað með sveit í 3. sæti þegar upp var staðið.
Sjálfum finnst mér skemmtilegast að tefla í annarri deildinni. Það er rólegra yfirbragð þar en í 1. deild og ekki lagt eins mikið undir. Jafnframt er breiddin meiri en í 3. deildinni og fullt af ágætum skákmönnum til að tefla við á hvaða borði sem maður lendir. Ég tók því slaginn þegar sveitin flaut upp og ákvað að tefla allar skákirnar þótt það hafi ekki staðið til í upphafi, og stjórna nokkrum liðum í leiðinni. Hef oft gert þetta áður en hef í seinni tíð að vísu teflt eitthvað minna og komst að því eftir á að sennilega er ég að verða of gamall fyrir svona stóran skammt.
3. deild
Við vorum með þrjár sveitir í 3. deild. Það voru þrjár sveitir fyrir ofan og þegar svo er getur sveiflujöfnunin verið nokkuð mikil, svo að sveitirnar eru nokkuð missterkar milli umferða. Í sveitunum var blanda af yngri og eldri skákmönnum, eins voru þær skipaðar jafnt mönnum að norðan og sunnan eins og C-sveitin. Sumir sem tefldu með sveitunum tóku einnig skákir með C-sveitinni. D- og E-sveitirnar voru frekar brokkgengar og unnu báðar tvær viðureignir og töpuðu tveimur en D-sveitin fékk fleiri vinninga. Báðar þessar sveitir eiga möguleika á að gera betur í seinni hlutanum og þá sérstaklega D-sveitin. F-sveitin vann eina viðureign og tapaði þremur. Þar eins og almennt í 3. deildinni eru menn bara að tefla sér til skemmtunar, hitta vini og kunningja og ræða málin. Það kemur svo bara í ljós eftir á hversu margir vinningar koma í hús og það skiptir ekki öllu máli.
4. deild
Í þetta sinn vorum við með tvær barna- og unglingasveitir í 4. deild. Við renndum alveg blint í sjóinn með getu þeirra. Eina viðmiðið var árið á undan þegar þær voru báðar í neðri hlutanum. Liðsskipan sveitanna var áþekk árinu á undan svo það kom ánægjulega á óvart að A-sveitinni gekk vel. Hún vann tvær viðureignir, gerði eitt jafntefli og tapaði einni viðureign og er í fimmta sæti en á eftir að mæta sterkari sveitum í upphafi seinni hlutans. B-sveitin stóð sig einnig ágætlega en þar hafa liðsmenn færri stig en í A-sveitinni. B-sveitin vann eina viðureign og tapaði þremur og safnaði nægum fjölda vinninga til að vera í 14. sæti. Sveitirnar eru skipaðar krökkum bæði að sunnan og norðan en liðsmenn eru samt farnir að þekkjast nokkuð eftir að hafa teflt saman í sveitum núna og á síðasta Íslandsmóti, auk þess sem sumir liðsmanna A- og B-sveitanna tóku snemma á þessu ári þátt í Árbótarmótinu fyrir norðan. Prýðisgóður liðsandi og leikgleði einkenndi keppendur Hugins í fjórðu deildinni, sem að allir hyggjast bíta í skjaldarrendur fyrir seinni hluta Íslandsmótsins með vori.
Vigfús Ó. Vigfússon
Myndirnar tók Erla Hlín hjálmarsdóttir