8.3.2010 kl. 11:49
Íslandsmót skákfélaga. Pistill formanns.
Þá er Íslandsmóti skákfélaga 2009-2010 lokið. Þetta var í 4. skiptið sem skákfélagið Goðinn sendir lið til keppni á íslandsmótið og alltaf hefur okkur tekist að bæta árangurinn ár frá ári. Engin undantekning varð á því nú. Vonir stóðu til að A-liðið næði í eitt af þremur efstu sætunum í 4. deildinni en það gekk ekki eftir. Eftir tap gegn SR-b í lokaumferðinni voru vonir okkar um verðlauna sæti að engu. A-liðið endaði í 5. sæti með 26 vinninga. Víkingasveitin vann 4. deildina en þeir fengu 29,5 vinninga.
Þessi bikar gekk okkur úr greipum !
B-liðið átti ágæta spretti og endaði í 20. sæti með 20 vinninga sem er betri árangur en í fyrra þegar Goðinn sendi í fyrsta skipti tvö lið til keppni á mótið. Reyndar voru sumir vinningarnir sem B-liðið fékk í ódýrari kantinum, því enn og aftur kom það fyrir að andstæðingar okkar gátu ekki fullmannað sín lið og er það með hreinum ólíkindum hve illa sum félög standa sig í liðstjórn.
Þegar félög af höfuðborgarsvæðinu senda 5-6 lið til keppni hefði maður haldið að auðvelt ætti að vera að skipuleggja hverjir tefla, í hvaða liði og í hverri umferð og hafa til taks einhverja varamenn ef einhverjir forfallast með skömmum fyrirvara. Eins ætti að vera auðvelt að færa keppendur upp úr neðstu sveit svo að ekki vanti keppendur í sveitir þar fyrir ofan. Það er ömulegt að ferðast langar leiðir til þess að taka þátt í skemmtilegu skákmóti og fá svo engan til þess að tefla við trekk í trekk. Af þeim 20 vinningum sem B-liðið fékk voru 7 þeirra þannig til komnir !
Þetta er til skammar og ber vott um lélega liðsstjórn.
Árangur einstakra liðsmanna félagsins.
A-liðið.

Erlingur Þorsteinsson tefldi á 1. borði. Erlingur vann eina skák, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák. Erlingur fékk sterkustu andstæðingana og leiddi sveitina með öruggum hætti. Erlingur landaði alls 4,5 vinningum úr 7 skákum og tapaði einugis einni skák, fyrir Ólafi Þórssyni (2204) í 5. umferð. Erlingur fékk næst flesta vinninga liðamanna A-liðsins. Mjög góð frammistaða eins og búast mátti við hjá Erlingi.

Jón Þorvaldsson tefldi á 2. borði og landaði 2 vinningum í sínum fyrstu skákum fyrir félagið. Hann vann eina skák og gerði tvö jantefli. Flott frammistaða hjá Jóni og sérstaklega þegar haft er í huga að Jón hafði ekki teflt kappskák í 10 ár þar til nú um helgina. Jón hefur reynst mikill happafengur fyrir Goðann og á eftir að skila félaginu miklu í framtíðinni. Það er alveg á hreinu.

Sindri Guðjónsson tefldi á 3. borði og mætti „útkeyrður“ til keppni alla leið frá Ísafirði, korter fyrir mót. Sindri gerði tvö jafntefli en tapaði í síðustu umferð. Sindri fékk alls 3,5 vinninga úr 6 skákum og tapaði bara einni skák.

Sigurður Jón Gunnarsson. Tefldi á 4. borði. Sigurður vann tvær skákir en tapaði einni. Sigurður Jón stóð sig frábærlega í mótinu. Hann tefldi allar skákirnar 7 og fékk 5 vinninga samtals. Sigurður vann alls 4 skákir gerði tvö jafntefli og tapaði aðeins einni skák. Af öðrum ólöstuðum stóð Sigurður sig best allra í A-liðinu og undirstrikaði það vel hve mikill fengur var í því að fá hann til liðs við félagið í fyrra.

Jakob Sævar Sigurðsson tefldi á 5. borði. Jakob gerði eitt jafntefli en tapaði tveimur skákum. Jakob fékk alls 3 vinninga úr 7 skákum samanlagt.

Smári Sigurðsson tefldi á 6. borði. Smári vann eina skák og gerði tvö jafntefli. Alls fékk Smári 4 vinninga úr 7 skákum og tapaði aðeins einni skák.
Barði Einarsson tefldi ekkert með núna og Pétur Gíslason tefldi eina skák í B-liðinu.
B-liðið
Pétur Gíslason. Tefldi á 1. borði í 5. umferð og vann þá skák. Pétur tefldi ekki í 6 og 7. umferð.
Pétur stóð sig frábærlega á mótinu, því hann fékk alls 4 vinninga úr 5 skákum og tapaði því aðeins einni skák.

Rúnar Ísleifsson. Tefldi á 1. borði í 6 og 7. umferð. Missti af fyrri hlutanum en lét til sín taka í seinni hlutanum. Rúnar vann eina skák og gerði eitt jafntefli og fékk svo einn vinning gefins í síðustu umferð því enginn andstæðingur var til staðar. Rúnar landaði því 2,5 vinningum úr þremur skákum.
Ævar Ákason. Tefldi á 3. borði í 5. umferð en á 2. broði í 6 og 7 umferð. Ævar vann eina skák, gerði eitt jafntefli og tapaði einni skák. Ævar landaði samtals 2,5 vinningum úr 7 skákum.

Hermann Aðalsteinsson. Tefldi á 4. borði í 5. umferð en á 3. borði í 6 og 7. umferð. Hermann fékk einn vinning gefins í 5. umferð því enginn andstæðingur var til staðar. Hermann tapaði báðum skákum sínum í 6 og 7. umferð. Hermann fékk alls 3 vinninga úr 6 skákum, en tveir þeirra voru gefins því Hermann var óheppin með það að andstæðingar hans mættu ekki til leiks í tveimur skákum af 6.
Sighvatur Karlsson. Tefldi á 5. borði í 5. umferð en á 4. borði í 6 og 7. umferð. Sighvatur vann tvær skákir en tapaði einni. Líkt og Hermann fékk Sighvatur engann andstæðing í 5. umferð og vann því léttan sigur. Sighvatur þurfti þó að hafa öllu meira fyrir sigri sínum í síðustu umferð, því sú skák fór í 108 leiki ! Sighvatur þurfti að hafa fyrir því að máta andstæðing sinn þrátt fyrir það að hafa verið með unnið frá c.a 5o. leik og kolunnið frá 80 leik, því þá átti andstæðingur hann aðeins kóng og tvö peð en Sighvatur hrók og biskup auk tveggja peða og síðar í skákinni vakti Sighvatur upp drottningu og var þá kóngur andstæðingsins einn eftir. Samt gaf hann ekki skákina ! Skákin endað þó með því að Sighvatur mátaði sinn andstæðing í 108. leik !
Sigurbjörn Ásmundsson. Tefldi á 6. borði í 1. umferð en á 5. borði í 6 og 7. umferð. Sigurbjörn tapaði tveimur skákum en vann eina létt þar sem enginn anstæðingur var til staðar. Hann var því jafn óheppinn og Hermann hvað það varðar. Sigurbjörn fékk alls tvo vinninga úr 6 skákum.
Einar Már Júlíusson. Tefldi á 6. borði í 6 og 7. umferð. Einar tapaði báðum sínum skákum. Einar kom inn sem varamaður í B-liðið. Einar tefldi ekkert í fyrri hlutanum.
Einar Garðar Hjaltason og Brandur þorgrímsson tefldu ekki í seinni hlutanum.
Framhaldið.
Þrátt fyrir vonbrigði í síðustu umferð er hugur í félagsmönnum og ætlar félagið að bæta í fyrir næsta Íslandsmót, á komandi hausti. Við erum þegar farnir að huga að því að styrkja félagið með ýmsum hætti og skýrist það á næstu vikum og mánuðum. Vonir standa til þess að hægt verði að bæta þriðja liðinu við næsta haust sem verði að mestu skipað unglinum sem æft hafa stýft í vetur.

Ég tel það fullkomlega raunhæft að félagið stefni á sigur í 4. deildinni á næsta ári. Eins er ekki ólíklegt að liðum í 3. deild verði fjölgað áður en keppni hefst næsta haust og þá tefli A-liðið í 3. deild að ári. Fari svo er það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni og löngu tímabær breyting til hins betra á fyrirkomulagi í deildarkeppninni. Þær breytingar verða vonandi samþykktar á aðalfundi SÍ í vor.
Að lokum langar mig til að þakka öllum þeim félögum sem tefldu fyrir Goðann í Íslandsmótinu, því allir lögðu mikið á sig til þess að vera og með og þá sérstaklega Sindri Guðjónsson sem hefur ferðast mest allra til þess að tefla fyrir hönd félagsins. Frá Þórshöfn í fyrri hlutanum og frá Ísafirði í seinni hlutanum.
Ekki minni þakkir á Jón Þorvaldsson skilið fyrir vasklega framgöngu fyrir hönd félagsins og glæsilegt kvöldverðarboð á heimili sínu fyrir allt keppnisliðið á föstudagkvöldið !
Hermann Aðalsteinsson formaður. Myndir: Sigurbjörn Ásmundsson.
