30.6.2010 kl. 22:59
Íslandsmót skákfélaga verður 8-10 október.
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga fer fram helgina 8-10 október í Reykjavík.
Goðinn sendir tvö lið til keppni, eins og undanfarin tvö ár og hugsanlegt er að þriðja liðið bætist við núna. Það verður þó ekki ljóst fyrr en á síðustu metrunum.
Nokkrir félagsmenn sem gátu ekki verið með í Íslandsmótinu í fyrra eru tilbúnir til þess núna, auk þess verður unglingunum okkar boðin þátttaka í mótinu.
Seinni hlutinn verður helgina 4-5 mars 2011.
Næsti viðburður hjá Goðanum er útifjöltefli við Norðurlandsmeistarann í skák 2010 sem er Áskel Örn Kárason. Útifjölteflið verður einhversstaðar á hafnarsvæðinu á Húsavík föstudaginn 23 Júlí, en þá standa yfir Mærudagar á Húsavík og verður margt um manninn á Húsavík þessa helgi.
Nokkuð góðar líkur eru á því að Goðinn taki þátt í Hraðskákkeppni taflfélaga í haust og skýrist það þegar nær dregur. Liðið verður mannað með félagsmönnum sem búa á höfuðborgarsvæðinu.
Sömuleiðis er líklegt að félagsmenn sem hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu haldi sínar eigin skákæfingar frá og með haustinu.
Stjórn Goðans vinnur nú að æfinga og mótaáætlun fyrir september til desember 2010 og vonandi verur hægt að birta hana ekki síðar en 20. ágúst.
Reiknað er með óbreyttu sniði á skákæfingunum og skákmótunum í vetur. Nú eru nýhafnar framkvæmdir við stækkun á fundarsal Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, en þar hefur félagið fengið inni í frábærri aðstöðu Framsýnar. Fundarsalurinn stækkar um 25 fermetra og ný borð og stólar verða í salnum. Formaður er vongóður um að samningar takist um afnot af fundarsalnum næsta vetur. H.A.
