Sjöunda umferð Íslandsmótsins í skák hefst kl. 16. Gríðarleg spenna er á mótinu og sviptingar miklar. Aldrei hafa nákvæmlega sömu aðilar leitt mótið tvær umferðir í röð. Þetta er í þriðja skiptið sem Íslandsmótið er haldið í Kópavogi. Alþjóðlegi meistarinn, Guðmundur Kjartansson, sem er aðeins sjöundi í stigaröð tíu keppenda er mjög óvænt efstur eftir sex umferðir með 4½ vinning og spurning hvort Kópavogur haldi áfram því hlutverki að bjóða upp á óvænta Íslandsmeistara.

Henrik Danielsen er annar með 4 vinninga. Bragi Þorfinnsson, Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar Stefánsson eru svo í 3.-5. sæti með 3½ og Þröstur Þórhallsson er sjötti með 3 vinninga. Allir þessara hafa möguleika á hampa Íslandsmeistaratitlinum.

Í sjöundu umferð, sem hefst í dag, mætast meðal annars Bragi og Guðmundur og Þröstur og Henrik. Gríðarlega mikilvægar viðureignir upp á framhald mótsins. Héðinn teflir við Guðmund Gíslason og Hannes við Einar Hjalta Jensson. Að lokum mætast stórmeistararnir Hjörvar Steinn Grétarsson og Helgi Áss Grétarsson.

Áskorendaflokkur:

Magnús Teitsson
Magnús Teitsson

Magnús Teitsson er efstur með 5½ vinning og Sigurður Daði Sigfússon er annar með 5 vinninga. Í 3.-6. sæti með 4½ vinning eru Gylfi Þórhallsson, Lenka Ptácníková, Dagur Ragnarsson og Sævar Bjarnason.

Magnús teflir við Davíð, Sigurður Daði við Gylfi og Lenka við Dag.

Tvö efstu sætin gefa sæti í landsliðsflokki að ári.

Áskorendaflokkur hefst kl. 17 í dag.

Íslandsmót kvenna

Íslandsmót kvenna er hluti af áskorendaflokki. Þar er Lenka efst með 4½ vinning, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir önnur með 4 vinninga og Elsa María Kristínardóttir og Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir í 3.-4. sæti með 3½ vinning.

Lenka teflir við Dag Ragnarsson, Jóhanna Björg við ungstirnið Vignir Vatnar, Hallgerður við Óskar Long Einarsson og Elsa María við Ragnar Árnason. (skák.is)