Jólapakkaskákmót Hugins og Skákdeildar Breiðabliks verður haldið laugardaginn 21. desember næstkomandi í Álfhólsskóla (Hjallaskóli Álfhólsvegi 120). Mótið hefst kl. 13 og er ókeypis á mótið. Mótið er ætlað börnum og unglingum og fer nú fram í 22. skipti en það var fyrst haldið fyrir jólin 1996. Síðan hefur það verið haldið nánast á hverju ári og hefur alltaf verið eitt fjölmennasta skákmót ársins.
Keppt verður í allt að 6 flokkum:
– Flokki fæddra 2004-2006
– Flokki fæddra 2007-2008
– Flokki fæddra 2009-2010
– Flokki fæddra 2011-2012
– Flokki fæddra 2013 og síðar
– Peðaskák fyrir þau yngstu
Tefldar verða 5 umferðir með 10 mínútna umhugsunartíma á mann. Jólapakkar eru í verðlaun fyrir 3 efstu sætin í hverjum aldursflokki fyrir sig fyrir bæði drengi og stúlkur. Auk þess verður happdrætti um 3 jólapakka í hverjum aldursflokki fyrir sig.
Með von um að sjá sem flesta á einu fjölmennasta og skemmtilegasta skákmóti ársins!