3.2.2014 kl. 10:41
Jón Viktor og Einar Hjalti urðu efstir og jafnir – Jón Viktor skákmeistari Reykjavíkur
Alþjóðlegi meistarinn Jón Viktor Gunnarsson (2412) sigraði á Skákþingi Reykjavíkur sem lauk í gær í húsakynnum Taflfélags Reykjavíkur að Faxafeni 12. Jón Viktor hlaut 8 vinninga, líkt og FIDE-meistarinn Einar Hjalti Jensson (2347), en varð ofar eftir stigaútreikning og er því Skákmeistari Reykjavíkur í fimmta sinn. Í lokaumferðinni sigraði Jón Viktor Jón Trausta Harðarson (2003) en Einar Hjalti hafði betur gegn stórmeistara kvenna, Lenku Ptacnikovu (2245).

Einar Hjalti t.h. gegn Símoni Þórhalls á Breiðumýri 2013.
Hinn fimmtán ára Oliver Aron Jóhannesson (2104) varð nokkuð óvænt í þriðja sæti með 7 vinninga en Oliver er á meðal efnilegustu skákmanna þjóðarinnar. Haraldur Baldursson (2013), Mikael Jóhann Karlsson (2056) og Loftur Baldvinsson (1981)höfnuðu í 4.-6. sæti með 6,5 vinning hver en Haraldur hlaut jafnframt verðlaun fyrir bestan árangur skákmanna með minna en 2000 ELO-stig.
