17.4.2012 kl. 22:08
Landsliðsflokkur. Tap í 4. umferð en sigur í 5. umferð.
Einar Hjalti Jensson vann góðan sigur í kvöld á alþjóðlega meistaranum geðþekka, Birni Þorfinnssyni, (2416) í vel tefldri skák. Upp kom sjaldgæf staða í ítölskum leik þar sem hvortveggi þurfti að feta vandrataða slóð til að halda sínu.
Eftir að skiptist upp á drottningum var þó mesta púðrið farið úr stöðu Björns og Einar Hjalti sigraði með snotrum lokahnykk. Í 4. umferð, sem tefld var í gær, tapaði Einar fyrir Henrik Daníelssen (2504) stórmeistara
Það er von okkar Goða að stríðsgæfan snúist nú á sveif með Einari sem átti í fyrradag gjörunnið tafl á móti Bolvíkingnum knáa, Guðmundi Gíslasyni, en tapaði fyrir slysni.
Einar stýrir hvítu mönnunum gegn Davíð Kjartanssyni (2305) í 6. umferð sem verður tefld á morgun.
