FM Magnús Örn Úlfarsson (2380) er genginn til liðs við Skákfélagið Hugin. Þessi geðþekki keppnismaður hefur lengi verið í fremstu röð íslenskra skákmanna þó að hann teljist enn ungur að árum.
Meðal afreka Magnúsar Arnar á skáksviðinu má nefna sæmdarheitið Unglingameistari Íslands 20 ára og yngri, sem hann ávann sér árið 1994, og titilinn Hraðskákmeistari Íslands árið 2003.
Magnús er ekki síður farsæll í starfi en rimmunni á hvítum reitum og svörtum, því hann er nýskipaður prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands.
Við bjóðum Magnús Örn velkominn í raðir okkar Huginsmanna og vonumst til að njóta atfylgis hans vel og lengi.