Rússar halda efsta sætinu á Evrópumótinu í skák í Laugardalshöll eftir jafntefli við Asera í 5. umferð. Gullaldarlið Íslendinga vann góðan sigur á Austurríki, íslenska kvennasveitin vann Noreg sannfærandi en A-lið Íslands beið lægri hlut fyrir Grikkjum. Mesta athygli í dag vakti tap Carlsens heimsmeistara fyrir svissenska stórmeistaranum Pelletier.
Á efsta borði beindust flestra augu að Rússans Grischuks og Aserans Radjabovs, enda lentu báðir í geigvænlegu tímahraki, áður en sverð voru slíðruð. Öllum skákum í viðureigninni lauk með jafntefli, og Rússar hafa því 9 stig á toppnum.
Úkraína sigraði sigraði Ungverja með minnsta mun, þar sem sigur Eljanovs á Rapport réði úrslitum. Frakkland sigraði Spánverja 3-1, þar sem Vachier-Lagrave gaf tóninn á efsta borði með sigri á Vallejo Pons. Vachier-Lagrave hefur nú fengið 4 vinninga af 5 á efsta borði og eru Frakkar til alls líklegir í seinni hálfleik mótsins.
Georgíumenn halda sömuleiðis góðum dampi, unnu Serba 3-1, og Þjóðverjar unnu Englendinga með minnsta mun.
Flestra augu beindust þó að viðureign Noregs og Sviss, þar sem heimsmeistarinn Carlsen lék illa af sér gegn stórmeistaranum Pelletier. Carlsen hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit í Laugardalshöll og hefur aðeins náð hálfum vinningi í þremur skákum og tapað 18 skákstigum í þessari Íslandsheimsókn.
Gullaldarliðið sigraði, A-liðið tapaði
Gullaldarlið Íslands vann dýrmætan sigur á Austurríki og virðist á fínni siglingu. Jóhann Hjartarson og Jón L. Árnason unnu, Margeir Pétursson gerði jafntefli en Helgi Ólafsson tapaði.
A-lið Íslands tapaði með minnsta mun fyrir Grikkjum. Jafntefli gerðu Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Guðmundur Kjartansson, en Henrik Danielsen beið lægri hlut. Hannes Hlífar Stefánsson hvíldi að þessu sinni.
Staðan á EM: 1. Rússland 9 stig. 2.-4. Frakkland, Úkraína og Georgía 8 stig. 5-7. Aserbajan, Holland, Þýskaland 7 stig. Gullaldarlið Íslands er í 28. sæti með 4 stig og A-lið Íslands er númer 30 með 3 stig.
Kvennaflokkur: Rússland áfram efst, góður sigur Íslands
Í kvennaflokki hélt rússneska liðið áfram sigurgöngu sinni og lagði Frakka, 3-1. Rússnesku stúlkurnar hafa 10 stig eftir fimm umferðir og sveit Úkraínu er komin í 2. sætið eftir sigur á Rúmeníu, 3-1. Úkraína hefur nú 8 stig, eins og Georgía sem vann Pólverja.
Íslenska kvennasveitin vann mjög góðan sigur á Norðmönnum, 3-1. Þær Lenka Ptacnikova, Guðlaug Þorsteinsdóttir og hin unga Hrund Hauksdóttir unnu, en Elsa María Kristínardóttir tapaði. Guðlaug hefur farið á kostum á mótinu og hefur náð í 4 vinninga í 5 skákum.
Frídagur er á Evrópumótinu á morgun, miðvikudag, en sjötta umferð hefst í Laugardalshöll á fimmtudag kl. 15. Þá mætast Georgíumenn og Rússar á efsta borði, og Frakkar glíma við Úkraínu.
Gullaldarlið Íslands mætir þá öflugri sveit Moldóvu og A-liðið mætir frændum okkar Færeyingum.
Í kvennaflokki mætast Rússland og Úkraína í einum af úrslitaleikjum mótsins. Íslenska kvennaliðið mætir sveit Englands.
Alls eru tefldar níu umferðir og er búist við háspennu í Höllinni í síðustu umferðunum.
- Myndagallerí (Uppfært eftir hverja umferð)
- Staðan í opnum flokki og pörun í 6. umferð
- Staðan í kvennaflokki og pörun í 6. umferð
- Beinar útsendingar
- Heimasíða mótsins
Myndagallerí
Ljósmyndari: HJ