25.10.2012 kl. 12:48
Skákkennsla að hefjast í þremur skólum í Þingeyjarsýslu
Líkt og undanfarin ár verður skákfélagið Goðinn-Mátar með skákkennslu í skólum Þingeyjarsýslu.
Nú er komið á hreint hvernig kennslunni verður háttað.

Teflt af keppi í Stórutjarnaskóla
Á mánudögum verður kennsla í Stórutjarnaskóla frá kl 15:30-16:30. Nemendur úr Litlulaugaskóla verða einnig með í þeirri kennslu. Fyrsta kennslustundin verður mánudaginn 29 október.

Þessir krakkar voru í kennslu í Borgarhólsskóla í fyrra.
Kennt verður alla þriðjudaga frá kl 15:00-16:00 í Borgarhólsskóla á Húsavík og verður fyrsta kennslustundin þriðjudaginn 6 nóvember.
Kennslan er öllum nemendum í skólunum þremur að kostnaðarlausu. Sveitarfélögin, Þingeyjarsveit og Norðurþing styðja skákfélagið Goðann-Máta til kennslunnar.
Á báðum stöðum verður nýtt námsefni sem Smári Rafn Teitsson samdi notað við kennsluna. Um kennsluna sér Hermann Aðalsteinsson, auk þess sem Smári Sigurðsson verður honum eitthvað til aðstoðar á Húsavík.
