Smári Sigurðsson segir nemendum til
Eins og fram kom hér á vefnum fyrr í haust, gerði Skákfélagið Goðinn samstarfssamning við Norðurþing í júlí á þessu ári, sem meðal annars gerði ráð fyrir að félagið sinnti skákkennslu í grunnskólum Norðurþings. Samningurinn gildir til eins árs. Það eru 3 grunnskólar í Norðurþingi, Borgarhólsskóli á Húsavík, Öxarfjarðarskóli og Grunnskólinn á Raufarhöfn og hófst skákkennslan í september. Smári Sigurðsson og Benedikt Þorri Sigurjónsson sjá um kennsluna í Borgarhólsskóla en Hermann Aðalsteinsson í Öxarfjarðarskóla og Grunnskóla Raufarhafnar.

Smári og Benedikt Þorri hafa nú þegar farið 4 sinnum í Borgarhólsskóla og kennt og leiðbeint nemendum í Frístund og hefur það gengið vel. Mun kennslan halda áfram í allan vetur.
Hermann er búinn að fara í tvær heimsóknir í Öxarfjarðarskóla og kennt og leiðbeint öllum nemendum skólans auk nemenda úr Grunnskóla Raufarhafnar, en krakkar frá Raufarhöfn er amk. tímabundið, öllum kennt í Öxarfjarðarskóla um þessar mundir. Hermann mun fara amk. 8 sinnum alls í Öxarfjarðarskóla og næsta heimsókn verður 20 nóvember. Opnaður hefur verið sérstakur staður á Lichess fyrir nemendur Öxarfjarðarskóla sem þau geta notað í vetur.
Þess má geta að Hermann, Smári og Benedikt sátu skákkennslu námskeið á vegum Skákskóla Íslands sem haldið var í haust. Metþátttaka var á námskeiðinu sem Björn Ívar Karlsson skólastjóri Skákskóla Íslands stóð fyrir. Námskeiðið fór fram í höfuðstöðvunum Skákskóla Íslands Faxafeni í Reykjavík en það var sent út á Teams og voru fleiri þátttakendur á Teams en í Faxafeni.
Nemendur í öllum skólunum þremur hafa tekið vel í kennsluna og hlakka alltaf til næstu heimsóknar.


