8.10.2008 kl. 21:44
Skákkennslu verkefnið „Skák í skólanna“ hófst í dag í Borgarhólsskóla.
Skákkennslu verkefnið „skák í skólanna“ hófst í Borgahólsskóla á Húsavík í dag. Verkefnið er samvinnuverkefni skáksambands Íslands og menntamálaráðaneytisins.
Alls sóttu 21 grunnskóli á landinu um styrk til verkefnisins og var Borgarhólsskóli valinn ásamt 5 öðrum skólum.
Skákkennslan verður í umsjá Smára Sigurðssonar og Hermanns Aðalsteinssonar frá skákfélaginu Goðanum. Fyrsta kennslustundin fór fram í dag.
Kennt verður alla miðvikudaga í vetur fram til apríl loka. Kennslan fer fram í stofu 6. í Borgarhólsskóla og hefst hún um leið og hefðbundnum skóladegi lýkur, kl 15:00. Áætlað er að hver kennslustund standi yfir í um 60 mínútur.
Nemendur í Borgarhólsskóla eru hvattir til þess að nýta sér þessa ókeypis kennslu í skák.
Síðar í vetur er svo von á Skákskóla Íslands í heimsókn í Þingeyjarsýslu og Húsavík.
Skákfélagið Goðinn hefur undanfarin ár haldið stutt skáknámskeið í skólum í Þingeyjarsýslu og Húsavík, en í vetur verður skákkennslan með markvissari hætti.
Skákfélagið Goðinn heldur nokkur árviss skákmót á sínu félagssvæði. Tvö skákmót eru á áætlun fyrir áramót. 15 mín mót verður haldið 15 nóvember og hraðskákmót verður svo haldið. 27 desember.
Eftir áramót eru svo fjölmörg skákmót á dagskrá, bæði hér í sýslunni, á Akureyri og í Reykjavík.
Íslandsmót barnaskólasveita er svo á dagskrá í mars. Mót þetta verður haldið í Reykjavík. Stefnt er að því að Borgarhólsskóli sendi skáksveit til keppni á það mót.
Skákkennslan verður því góð æfing fyrir öll þau skákmót sem nemendum í Borgarhólsskóla stendur til boða að taka þátt í, í vetur.
