Ákveðið hefur verið að Skákþing Norðlendinga 2020 fari fram í Framsýnarsalnum á Húsavík sunnudaginn 13. desember, fari svo að samkomutakmarkanir verði rýmkaðar á landsbyggðinni í næstu viku. Verði samkomutakmarknir óbreyttar fer mótið fram á netinu (tornelo.com) sama dag. Í báðum tilfellum er um að ræða eins dags mót og fari það fram í Framsýnarsalnum verður það reiknað til FIDE atskákstiga.
SÞN í Framsýnarsalnum. Fari svo að við getum teflt yfir borðið í Framsýnarsalnum verða tefldar 7 til 9 umferðir með 10 til 15 mín umhugsunartíma auk 2 sek í viðbótartíma á hvern leik. Umferðafjöldinn ræðst af keppendafjölda. Mótið hefst kl 10:30 og búast má við að því verði lokið um kl 18:00. Peningaverðlaun verða fyrir 3 efstu sætin á mótinu auk eignarbikara fyrir þrjá efstu. Verðlaun verða einnig veitt í flokki 16 ára og yngri. Vegna sóttvarna verður mótið einungis fyrir íbúa á Norðurlandi.
SÞN á Tornelo.com. Fari mótið fram á tornelo.com er stefnt að því að tefla 9 umferðir með umhugsunartímanum 8-2. á mann, en endanlegur fjöldi umferða og umhugsunartími ræðst af þátttöku. Mótið hefst kl 13:00 og má búast við að því verði lokið kl 16:00. Það mót verður opið öllum áhugasömum en einungis skákmenn með lögheimili á Norðurlandi geta unnið til verðlauna. Sömu verðlaun verða í netmótinu og eru fyrirhuguð á mótinu í Framsýnarsalnum. Gunnar Björnsson verður mótsstjóri á netmótinu og allir keppendur verða að vera tengdir á Zoom á meðan á mótinu stendur.
